Innlent

Karl Vignir í sjö ára fangelsi

Stígur Helgason skrifar
Karl Vignir hefur setið í gæsluvarðhaldi í nálega hálft ár.
Karl Vignir hefur setið í gæsluvarðhaldi í nálega hálft ár.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag Karl Vigni Þorsteinsson í sjö ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn þremur andlega fötluðum mönnum.

Karl Vignir var sakfelldur fyrir að nauðga þeim öllum og fyrir vændiskaup með því að greiða tveimur þeirra fyrir samræðið. Brot gegn fjórða manninum var fyrnt þegar rannsókn hófst og ekki var unnt að refsa honum fyrir að greiða þeim þriðja fyrir vændi, þar sem það var ekki lögbrot á þeim tíma.

Hann er dæmdur til að greiða mönnunum þremur 600 þúsund, 900 þúsund og 1,1 milljón króna í miskabætur. Þá þarf hann að greiða rúmlega tvær milljónir í málsvarnarlaun, rúmlega 800 þúsund krónur í þóknun réttargæslumanna brotaþola og 1400 þúsund krónur í annan sakarkostnað.

Karl Vignir hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan í janúar, eftir að Kastljós fjallaði ítarlega um áratugalangan brotaferil hans. Hann gekkst við brotum gegn tugum barna og ungmenna í þættinum og í kjölfarið bárust kærur á hendur honum vegna nýlegri brota, sem nú hafa leitt til dóms.

Í dómnum segir að brot Karls Vignis séu mjög alvarleg. Þau séu mörg og hafi staðið yfir langt tímabil. Brotavilji hans hafi verið einbeittur og brotin beinst að andlega fötluðum mönnum sem treystu honum og litu á hann sem vin sinn. Í dómnum segir að hann eigi sér engar málsbætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×