Menning

Ræða hlutverk lista og fagna myrkri

Tenging norður Á sýningunni eru verk eftir 27 listamenn frá norðlægum slóðum. Hún verður opin til 24. nóvember.
Tenging norður Á sýningunni eru verk eftir 27 listamenn frá norðlægum slóðum. Hún verður opin til 24. nóvember.
Tenging norður nefnist alþjóðleg ráðstefna um listir, listkennslu og sjálfbærni sem haldin verður í Norræna húsinu á fimmtudag og föstudag. Í tengslum við ráðstefnuna verður opnuð myndlistarsýning þar sem 27 listamenn frá norðlægum slóðum sýna verk sem tengjast á einhvern hátt inntaki ráðstefnunnar. Rúsínan í pylsuendanum verður svo blysför sem farin verður niður á Ægisíðu klukkan 17.30 á föstudag en þar verður kveikt á eldskúlptúrum að hætti íbúa Lapplands til að fagna myrkrinu.



Ráðstefnan er skipulögð af Listaháskóla Íslands og Háskóla Lapplands í Rovaniemi í tengslum við samstarfsnetið Arctic Sustainable Arts and Design (ASAD) sem er hluti af Norðurheimskautsháskólanum. Flutt verða átján erindi um málefni sem tengjast listum, listkennslu og sjálfbærni á norðurheimskautssvæðinu. Leitað verður svara við spurningum um hvort listir henti til að vekja athygli á þeim áskorunum er blasa við íbúum á norðurslóð í dag og hvert hlutverk lista geti verið í því að skrásetja áríðandi málefni íbúanna. Að sögn Ásthildar Bjargar Jónsdóttur, lektors í listkennsludeild Listaháskólans, eru framsögumennirnir fræðimenn og listamenn frá öllum þátttökulöndunum og hún segist eiga von á fróðlegum og líflegum umræðum.



Fyrir gjörningnum á Ægisíðu standa tvær finnskar listakonur, Hilkka Kempii og Suvi Autio, sem undanfarið hafa verið með námskeið á vegum listkennsludeildar Listaháskólans í því að búa til slíka eldskúlptúra með ævagamalli aðferð frá Lapplandi, en þar er aldagömul hefð fyrir því að fagna vetrinum og myrkrinu með þessum hætti. Börn frá Hjallastefnuleikskólum og nemendur úr Fjölbrautaskóla Garðabæjar taka þátt í gjörningnum og nemendur Borgarholtsskóla festa hann á filmu.



Nauðsynlegt er að skrá sig til þátttöku í ráðstefnunni á netfangið astajons@lhi.is en myndlistarsýningin og gjörningurinn á Ægisíðunni eru að sjálfsögðu öllum opin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.