Menning

Kvartett Sigrúnar Eðvalds á tónleikum Kammermúsíkklúbbsins

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Sigrún Eðvaldsdóttir og Zbigniew Dubik leika á fiðlur, Ásdís Valdimarsdóttir á víólu og Bryndís Halla Gylfadóttir á selló.
Sigrún Eðvaldsdóttir og Zbigniew Dubik leika á fiðlur, Ásdís Valdimarsdóttir á víólu og Bryndís Halla Gylfadóttir á selló.
Fyrstu tónleikar 57. starfsárs Kammermúsíkklúbbsins eru á sunnudag. Kvartett Sigrúnar Eðvaldsdóttur flytur þrjá strengjakvartetta í Norðurljósasal Hörpu.

„Ég hef leitt kvartetta fyrir Kammermúsíkklúbbinn rosalega lengi, alveg síðan á níunda áratug síðustu aldar, ég var ekki einu sinni búin að klára skólann þegar ég kom fyrst fram fyrir þá,“ segir Sigrún Eðvaldsdóttir spurð hvort kvartett undir hennar nafni sé rótgróið fyrirbæri. „Hann heitir ekkert endilega Kvartett Sigrúnar Eðvalds. Málið er að við höfum aldrei valið okkur nafn vegna þess að í gegnum tíðina hafa verið miklar mannabreytingar í kvartettinum. Það felst ákveðið hlutleysi í því að vera ekki með nafn, þá er ekki eins niðurneglt hverjir skipa hann hverju sinni.“

Kvartettinn sem leikur á sunnudaginn er auk Sigrúnar skipaður þeim Zbigniew Dubik á fiðlu, Ásdísi Valdimarsdóttur á víólu og Bryndísi Höllu Gylfadóttur á selló. Á efnisskrá tónleikanna eru þrír strengjakvartettar: síðasti kvartett Beethovens, fyrsti kvartett Brahms og einn af kvartettum spænska undrabarnsins Arriaga. „Þetta eru þrír rosalega flottir kvartettar,“ segir Sigrún og leggur áherslu á rosalega.

Tónleikarnir marka upphaf 57. starfsárs Kammermúsíkklúbbsins, sem starfað hefur síðan 1957 og haldið meira en 280 tónleika. Sigrún hefur tekið þátt í þeim einu sinni á ári og segir það algjörlega nauðsynlegan lið í tónlistarárinu. „Þetta hefur verið fastur punktur í lífinu í öll þessi ár, sem er yndislegt og algjör nauðsyn fyrir mig,“ segir hún. „Þeir hafa haldið uppi frábæru starfi og gert fólki kleift að spila kammermúsík en til þess gefast ekkert svo mörg tækifæri á þessu litla landi. Það er bara stórkostlegt að fá að taka þátt í þessu.“

Tónleikarnir eru í Norðurljósasal Hörpu og hefjast klukkan 19.30.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×