Fótbolti

Fer frá Napoli til Internazionale

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Walter Mazzarri.
Walter Mazzarri. Mynd/NordicPhotos/Getty

Walter Mazzarri verður nýr þjálfari ítalska liðsins Internazionale frá Mílanó en hann skrifaði í gær undir tveggja ára samning. Mazzarri hefur gert frábæra hluti með Napoli á fjórum tímabilum sínum þar.

Mazzarri tekur við af Andrea Stramaccioni sem þurfti að taka pokann sinn en Internazionale tapaði fjórum af fimm síðustu sætum sínum og endaði aðeins í 9. sæti. Hinum 37 ára gamla Stramaccioni var þakkað fyrir fagmennsku á erfiðu tímabili en hann tók við starfinu af Claudio Ranieri í mars 2012.

Walter Mazzarri er 51 árs og undir hans stjórn náði Napoli öðru sætinu í ítölsku deildinni á þessu tímabili. Napoli vann einnig ítalska bikarinn í fyrra og komst í Meistaradeildina í fyrsta sinn.

Mazzarri verður sjötti þjálfarinn sem tekur við liði Internazionale frá því að José Mourinho gerði Inter að þreföldum meisturum áður en hann hætti störfum og tók við Real Madrid.

Þjálfarar Internazionale undanfarin tíu ár:

Roberto Mancini     2004–2008

José Mourinho     2008–2010

Rafael Benítez     2010

Leonardo     2010–2011

Gian Piero Gasperini     2011

Claudio Ranieri     2011–2012

Andrea Stramaccioni     2012–2013

Walter Mazzarri     2013–


Tengdar fréttir

Benitez ráðinn þjálfari Napoli

Forseti Napoli, Aurelio de Laurentiis, hefur staðfest að Spánverjinn Rafael Benitez taki við sem þjálfari liðsins í sumar. Hann tekur við starfinu af Walter Mazzarri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×