Menning

Í fararbroddi í flutningi nýrra íslenskra leikrita

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Viðar Eggertsson er stoltur af því að Útvarpsleikhúsið skuli flytja flest ný íslensk leikverk af íslesnskum leikhúsum.
Viðar Eggertsson er stoltur af því að Útvarpsleikhúsið skuli flytja flest ný íslensk leikverk af íslesnskum leikhúsum. Fréttablaðið/Vilhelm
Útvarpsleikhúsið frumflytur í vetur tíu ný íslensk leikverk, bæði eftir vel þekkta og minna þekkta höfunda. Viðar Eggertsson, stjórnandi Útvarpsleikhússins, segir það sérlega ánægjulegt að frumflytja fleiri íslensk verk en nokkurt annað leikhús landsins.

„Fyrsta verkið sem frumflutt verður fer í loftið sunnudaginn 29. september,“ segir Viðar Eggertsson, stjórnandi Útvarpsleikhússins, spurður hvenær hin metnaðarfulla vetrardagskrá hefjist. „Síðan dreifast þessi nýju verk tiltölulega jafnt yfir veturinn og fram í maí á næsta ári.“



Er ekki Útvarpsleikhúsið undir þinni stjórn í fararbroddi hvað varðar það að fá íslenska höfunda til að skrifa leikrit?

„Það má segja að við höfum gert það að aðalmarkmiði Útvarpsleikhússins núna á síðari árum að frumflytja ný íslensk verk,“ segir Viðar. „Við höfum leitað til höfunda um að skrifa fyrir þennan miðil, auk þess sem við höfum verið í mjög gjöfulu samstarfi við tvær síðustu Listahátíðir í Reykjavík. Þar hafa verk verið flutt í sviðsettum leiklestrum og síðan hafa höfundar og leikstjórar fengið svigrúm til að vinna þau áfram og við frumflutt þau veturinn á eftir. Þessi aðferð hefur gefið mjög góða raun og verið lærdómsrík fyrir höfundana og leikstjórana og skilað okkur tíu athyglisverðum leikritum, bæði frá nokkrum af okkar ástsælustu skáldum og björtustu vonum framtíðarinnar, ef svo má segja. Og það er rétt að ekkert íslenskt leikhús frumflytur jafn mörg íslensk verk og Útvarpsleikhúsið, sem er sérlega ánægjulegt.“

Hátt hlutfall kvenna í flokki höfunda og leikstjóra vekur athygli, var það meðvitað átak?

„Já, það hefur hallað á konur í þessum geira, en það var lítið mál þegar við settumst niður til að ákveða til hvaða höfunda við vildum leita að finna konur til að skrifa leikrit. Þær sem ég leitaði til brugðust allar fljótt og vel við þannig að þetta er bara spurning um að hafa áhrif á fólk og vekja áhuga þess á þessum miðli.“

Nýtt fjárhagsár Ríkisútvarpsins hefst í september, óttastu að það verði þyngri róður næsta ár í ljósi umræðu um niðurskurð til RÚV?

„Við skulum vona að það verði skilningur á mikilvægi Útvarpsleikhússins því þótt útvarpsleikrit séu dýrasta efnið sem framleitt er fyrir útvarp er það ódýrasta leikhús sem til er og við náum til mun fleiri gesta en önnur leikhús. Við höfum því ákveðnu menningarhlutverki að gegna sem felst í því að vinna með miðilinn, skoða samtíma okkar og líf og fá til þess margt af okkar áhugaverðasta leikhúsfólki.“

Útvarpsleikhúsið sendir út á hverjum sunnudegi klukkan 13 og eins og Viðar orðar það: „Það eru allir velkomnir og hjá okkur sitja allir í bestu sætum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×