Opnunarhátíð mótsins verður í beinni útsendingu á Stöð 2 sport, sem hefst klukkan 13:00 á sunnudaginn að íslenskum tíma. Stöð 2 Sport hefur tryggt sér útsendingarréttinn en mótið verður haldið í Berlín í Þýskalandi dagana 4. - 11. ágúst. Verður Stöð 2 Sport með beinar útsendingar frá mótinu alla keppnisdagana og samantektarþætti á kvöldin. Þetta mun verða í fyrsta skipti sem Heimsmeistaramóti íslenska hestsins verður sjónvarpað í heild sinni í beinni útsendingu með íslenskum lýsingum.

Íslenskir hestar frá 15 löndum munu taka þátt í heimsmeistaramótinu í Berlín en alls eru 163 þátttakendur skráðir til leiks, þar á meðal 8 fyrrverandi heimsmeistarar. Á heimsmeistaramótinu eru sjö keppnisgreinar; tölt, slaktaumatölt, fjórgangur, fimmgangur, gæðingaskeið, 250 metra skeið og 100 metra flugskeið. Þá munu 44 kynbótahross hljóta dóm í kynbótasýningu.
Auk beinna útsendinga verða samantektarþættir á hverju kvöldi þar sem farið verður yfir hápunkta dagsins og sýnd eru viðtöl við keppnisknapa og gesti mótsins. Að mótinu loknu verða vikulegir þættir á dagskrá í ágúst mánuði, þar sem fjallað verður um mótið og mannlífið í kringum það. Viðtöl við keppnisknapa íslenska landsliðsins, þjálfara og aðstandendur.
Telma Tómasson, Logi Laxdal og Steindór Guðmundsson munu hafa umsjón með íslenskum lýsingum frá Heimsmeistaramóti íslenska hestsins á Stöð 2 sport.