Fótbolti

Birkir til Pescara fyrir rúmlega milljón evra

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Birkir í baráttunni við Francesco Totti í vetur.
Birkir í baráttunni við Francesco Totti í vetur. Nordicphotos/AFP
Landsliðsmaðurinn Birkir Bjarnason er orðinn leikmaður Pescara á Ítalíu. Jim Solbakken, umboðsmaður Birkis, staðfesti þetta í samtali við Vísi í dag.

Birkir var í láni hjá ítalska liðinu í vetur frá Standard Liege í Belgíu. Birki gekk vel en svo fór að Pescara féll úr efstu deild. Solbakken segir Pescara hafa haft forkaupsrétt á Birki.

„Pescara nýtti sér forkaupsréttinn," sagði Solbakken og staðfesti að kaupverðið væri rúm ein milljón evra eða rúmlega 160 milljónir íslenskra króna.

Birkir sagði í viðtali við Vísi á dögunum að hann hefði ekki mikinn áhuga á að spila í næstefstu deild á Ítalíu. Því er með öllu óvíst hvort Birkir verði áfram hjá ítalska liðinu.

„Ég er að vinna í nokkrum möguleikum núna. Við sjáum til hvað gerist. Í augnablikinu er hann leikmaður Pescara og þeir greiða laun hans," sagði Solbakken.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×