Innlent

Hvorki einelti né ofbeldi

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Fundargestir í Grafarvogi voru ekki á eitt sáttir um svör borgarstjóra.
Fundargestir í Grafarvogi voru ekki á eitt sáttir um svör borgarstjóra. Mynd/VG
Skrif borgarstjóra Reykjavíkur, Jóns Gnarr, um að hafa orðið fyrir einelti og ofbeldi á íbúafundi í Grafarvogi í gærkvöldi hafa vakið mikla athygli, en Jón segir sorglegt hvað frekja og yfirgangur ráði miklu í samfélaginu.

Sigurður Egill Sigurðsson, flugnemi, var staddur á fundinum og segir það orðum aukið að borgarstjórinn hafi orðið fyrir ofbeldi.

„Þetta er ný skilgreining á þessum orðum. En hann var gagnrýndur, það vantaði ekki."

Sigurður segir mönnum hafa orðið heitt í hamsi þegar þeim fannst svör borgarstjórans ófullnægjandi við spurningum úr sal. Borgarstjóri hafi aðeins svarað spurningum um göngustíga og lýsingu, en engu um sameiningu grunnskólanna og auknum útgjöldum borgarinnar.

„Fundargestir voru ekki ánægðir. Einn var með frammíköll og annar gekk ef til vill aðeins of langt þegar hann sagðist ekki geta beðið eftir að losna við borgarstjórnina. En þetta var hvorki einelti né ofbeldi."

Sigurður kaus Besta flokkinn í síðustu borgarstjórnarkosningum og segir hann hafa valdið eintómum vonbrigðum.

„Það var talað um það að það ætti að sjá um týndu úthverfin, en Grafarvogurinn hefur aldrei verið jafn gleymdur."


Tengdar fréttir

Upplifði einelti og ofbeldi á íbúafundi í Grafarvogi

Borgarstjóri Reykjavíkur, Jón Gnarr, segist hafa upplifað einelti, og "hreint og klárt ofbeldi frá nokkrum fundagestum" á íbúafundi í Grafarvogi í kvöld. Jón lýsir þessu í Dagbók borgarstjórans á samskiptavefnum Facebook.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×