Menning

Dómkórinn flytur Magnificat eftir Hildigunni Rúnarsdóttur

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Hildigunnur segist hafa haft sérlega gaman af því að takast á við Magnificat sem fjölmörg önnur tónskáld hafa samið tónlist við.
Hildigunnur segist hafa haft sérlega gaman af því að takast á við Magnificat sem fjölmörg önnur tónskáld hafa samið tónlist við.
Tónlistardögum Dómkirkjunnar lýkur á laugardaginn þegar Dómkórinn frumflytur glænýtt kórverk í tólf köflum eftir Hildigunni Rúnarsdóttur á tónleikum í Dómkirkjunni. Einnig verða flutt nokkur íslensk lög eftir Önnu S. Þorvaldsdóttur, Báru Grímsdóttur og fleiri.



„Þetta er Magnificat með texta beint úr Biblíunni og snýst um boðun Maríu,“ útskýrir Hildigunnur. „Þau komu til mín frá Dómkórnum fyrir um ári síðan og báðu mig að gera þetta og ég varð að sjálfsögðu við því. Þetta er kórverk án undirleiks og hægt að flytja kaflana hvern í sínu lagi þannig að þetta eru í raun tólf ný kirkjuleg verk.“



Hildigunnur segist oft hafa samið kirkjuleg tónverk áður, sem sé raunar dálítið skrítið þar sem hún sé trúlaus. „En það skiptir engu, ég vinn að þessu af heilindum og með opnum hug og fannst sérlega gaman að takast á við þetta verkefni. Það hafa mjög margir samið Magnificat og frægast er að sjálfsögðu verk Bachs. Þetta er nú ekki alveg jafnlangt og það en næstum því,“ segir Hildigunnur og hlær.



Dómkórinn hefur í um 30 ár staðið fyrir tónlistardögum kirkjunnar undir heitinu Soli Deo Gloria, Guði einum dýrð og af því tilefni hafa á hverju ári verið frumflutt ný tónverk sem samin eru sérstaklega fyrir kórinn eða organistann. Kórstjóri á tónleikunum er Kári Þormar dómorganisti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×