Erlent

HMV fjarlægir tónlist barnaníðingsins

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Allar plötur sveitarinnar verða fjarlægðar, bæði úr hillum búðanna og af vefverslun HMV.
Allar plötur sveitarinnar verða fjarlægðar, bæði úr hillum búðanna og af vefverslun HMV.
Tónlist hljómsveitarinnar Lostprophets verður ekki seld í verslunum HMV í Bretlandi héðan í frá, og verða allar plötur sveitarinnar fjarlægðar, bæði úr hillum búðanna og af vefverslun HMV. Þetta staðfestir talsmaður HMV við tónlistarvef NME, en HMV rekur 140 plötubúðir í Bretlandi.

Ákvörðunin er tekin í kjölfar þess að Ian Watkins, söngvari sveitarinnar, játaði í réttarsal að hafa framið fjölda kynferðisbrota, þar á meðal tvær tilraunir til þess að nauðga börnum. Meðal annars fékk hann aðdáendur sína, tvær konur, til þess að misnota sín eigin börn til þess að geðjast honum.

Talsmaður Apple vildi ekki tjá sig um hvort iTunes myndi fylgja fordæmi HMV og fjarlægja tónlist sveitarinnar vegna málsins, og vefverslun Amazon UK svaraði ekki.

Lostprophets var stofnuð árið 1997 og hefur selt meira en þrjár milljónir platna um allan heim, en hefur nú lagt upp laupana vegna málsins.

Dómur í máli Watkins verður kveðinn upp 18. desember.


Tengdar fréttir

Quarashi ferðaðist með barnaníðingnum Watkins

Hljómsveitin Quarashi fór í tónleikaferðalag með hljómsveitinni Lostprophets. Söngvari Lostprophets, Ian Watkins, játaði í dag að hafa framið fjölda kynferðisbrota gegn börnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×