Viðskipti innlent

Úttekt á stöðu aðildarviðræðna við ESB kynnt næsta vor

Haraldur Guðmundsson skrifar
Gert er ráð fyrir að vinna við úttektina taki um fimm mánuði.
Gert er ráð fyrir að vinna við úttektina taki um fimm mánuði. Mynd/AFP.
Alþýðusamband Íslands, Félag atvinnurekenda, Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands hafa undirritað samning við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands um að stofnunin vinni úttekt á stöðu aðildarviðræðna við Evrópusambandið (ESB).

Gert er ráð fyrir að vinnan taki fimm mánuði og að úttektin verði síðan kynnt opinberlega vorið 2014, að því er fram kemur í tilkynningu frá samtökunum.

Þar segir að úttektin muni leggja mat á stöðu aðildarviðræðna Íslands og ESB og greina þau álitaefni sem eru til staðar og þá kosti sem eru í stöðunni.  

„Þá verður fjallað um þróun Evrópusambandsins síðan aðildarviðræðurnar hófust með sérstakri áherslu á gjaldmiðilssamstarfið. Sérstakt mat verður einnig lagt á hvernig hefja mætti aðildarviðræður við ESB að nýju ef vilji stendur til þess. Þá verður lagt mat á EES samninginn og þá möguleika og takmarkanir sem í honum felast

Það er mat þeirra samtaka sem að verkefninu standa að hlutlæg og greinargóð úttekt af þessu tagi sé lykilforsenda þess að hægt sé að meta hvaða valkostir séu best til fallnir að tryggja samkeppnishæfni atvinnulífsins til lengri tíma og um leið skapa sem best lífskjör fyrir heimilin í landinu

Skýrsla utanríkisráðuneytisins frá apríl 2013 verður meginheimildin í þessum kafla, en einnig verður stuðst við gögn sem nálgast má á vidraedur.is til þess að leggja mat á ýmis álitamál sem komið hafa upp við mótun samningsafstöðu Íslands,“ segir í tilkynningu samtakanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×