Innlent

Réttarhöld í fíkniefnamáli yfir Íslendingum hafin í Danmörku

Hjörtur Hjartarson skrifar
Réttarhöld hófust í stóru fíkniefnamáli í Danmörku í dag yfir ellefu einstaklingum, flestum frá Íslandi. Mennirnir eru ákærðir fyrir að hafa smyglað tugum kílóa af amfetamíni frá Hollandi til Danmerkur. Einn Íslendingur var í júní dæmdur í 12 ára fangelsi vegna sama máls.

Málið er rekið fyrir dómstólum í Kaupmannahöfn og hófust réttarhöldin í dag. Guðmundur Ingi Þóroddsson er sagður höfuðpaurinn í málinu. Hann játaði brot sín við yfirheyrslur þegar málið kom fyrst upp og var í kjölfarið dæmdur í 12 ára fangelsi.

Sjö Íslendingar voru leiddir fyrir dómara í dag auk samverkamenn þeirra frá Danmörku og Frakklandi. Málið er afar stórt í sniðum og teygir anga sína víða. Lögreglumenn frá Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Danmörku unnu að rannsókn málsins.

Alls eru mennirnir grunaðir um að hafa reynt að smygla nærri 70 kílóum í nokkrum ferðum frá Hollandi til Danmerkur. Upp komst um smyglið í ágúst á síðasta ári þegar danska lögreglan lagði hald á 12 kíló af amfetamíni í bíl sem var á leið yfir landamærin. Talið er að hinn ólöglegi innflutningur hafði þá staðið yfir í tæpt ár. Reiknað er með að dómur falli í málinu í næsta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×