Menning

Bestu myndirnar verðlaunaðar

Sigurmynd sænska ljósmyndarans Pauls Hansen sýnir tvö börn borin til grafar eftir loftárásir ísraelska hersins.
Sigurmynd sænska ljósmyndarans Pauls Hansen sýnir tvö börn borin til grafar eftir loftárásir ísraelska hersins. nordicphotos/AFP
Meira en 50 ljósmyndarar hlutu verðlaun í hinni árlegu myndakeppni World Press Photo þetta árið. Ljósmynd frá útför tveggja ungra barna á Gasa þótti besta fréttaljósmynd ársins 2012.

Sænski ljósmyndarinn Paul Hansen hreppti verðlaun fyrir bestu fréttaljósmynd ársins 2012. Verðlaunin fékk hann fyrir mynd frá jarðarför á Gasaströnd.

Á myndinni sjást lík tveggja ungra barna borin til grafar af hópi reiðra og sorgmæddra karlmanna. Myndin er tekin 20. nóvember í Gasaborg, en börnin létu lífið í loftárás ísraelska hersins á borgina.

„Styrkur myndarinnar liggur í því hvernig hún sýnir reiði og sorg hinna fullorðnu andspænis sakleysi barnanna," segir Mayu Mohanna frá Perú, ein úr dómnefnd World Press Photo-verðlaunanna. „Þetta er mynd sem ég mun ekki gleyma."

Alls eru veitt verðlaun í níu flokkum, sem þetta árið komu í hlut 54 ljósmyndara frá 32 löndum. Alls sendu 5.666 ljósmyndarar frá 124 löndum 103.481 ljósmynd til þátttöku í keppninni. Verðlaunin eru með þeim virtustu í heimi fréttaljósmyndara.

Mynd Hansens þótti best í flokki stakra fréttaljósmynda og hlaut jafnframt verðlaun sem fréttaljósmynd ársins.

„Ég er mjög ánægður en líka mjög dapur. Fjölskyldan missti tvö börn og móðirin er meðvitundarlaus á sjúkrahúsi," sagði Hansen.

Myndir frá átökunum fyrir botni Miðjarðarhafs voru áberandi í flokkum fréttaljósmynda þetta árið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.