Menning

Leitar að því sem brennur á samfélaginu

Bergsteinn Sigurðsson skrifar
Eva Ísleifsdóttir rannsakar samfélagslegt minni í listgjörningi. Fréttablaðið/Stefán
Eva Ísleifsdóttir rannsakar samfélagslegt minni í listgjörningi. Fréttablaðið/Stefán
"Ég er að rannsaka samfélagslegt minni og reyna að komast að því hvort hin samfélagslega samviska eigi sér einhver sameiningartákn,“ segir Eva Ísleifsdóttur um listgjörninginn Cry Havoc, sem hún stendur fyrir. Verkefnið er partur af Make Space vinnustofudvöl í Reykjavík, sem Eva tekur þátt í og er haldin af The Nordic Residency Project á vegum The Festival í Reykjavík og The Anti Festival í Finnlandi. "Það var send út tilkynning um að listamenn gætu búið til verkefni í kringum konseptið hlýja,“ útskýrir Eva. "Ég ákvað að gera verkefni um eldinn því hann getur bæði verið sameiningartákn, til dæmis varðeldurinn sem fólk safnast saman í kringum, og eyðileggingarafl.“ Titill verksins er dreginn af frönsku herópi en inntak verksins er eins konar herhvöt, þar sem Eva óskar eftir tillögum frá fólki um hús og byggingar sem það vill sjá eyðilögð. Öll hús koma til greina, bæði opinberar byggingar og íbúðarhús. Í framhaldinu velur Eva eitt hús sem hún "kveikir í“ á táknrænan með eldskúlptúrum þannig að húsið verður "alelda“ í einn dag. En til þess þarf leyfi húsráðanda. "Þar verður til samtal, sem verður jafnframt hluti af verkinu og setur það í nýtt samhengi. Sumir senda kannski tillögur inn í gamni en það getur verið sláandi fyrir fólk að heyra að einhver vilji brenna ofan af því – þá fær verkið skyndilega alvarlegan tón,“ segir Eva, sem ákveður hvaða bygging verður fyrir valinu út frá fjölda tilnefninga og meðfylgjandi rökstuðningi. Í framhaldi gjörningsins verður gefin út bók þar sem allar helstu upplýsingar og samtöl verða teknar saman á einn stað. Evu hefur þegar borist fjöldi tilnefninga og segir greinilegt mynstur farið að myndast. "Stofnanir og opinberar byggingar eru algengastar, það beinist greinilega mikil reiði að stærri byggingum.“ Gjörningurinn verður kynntur á opnum fundi í Ráðhúsi Reykjavíkur klukkan 20 í kvöld. Auk Evu halda þar erindi Alexander Roberts og Ásgerður G. Gunnarsdóttir, sem flytja stutta kynningu á verkefninu Make Space; Magdalena Sigurðardóttir arkitekt fjallar um arkitektúr og umhverfi og Jón Örn Loðmfjörð ljóðskáld flytur erindið Góðmenni í hádeginu, níðingur á kvöldin – allt litróf samviskunnar. Nánari upplýsingar: cryhavocproject.tumblr.comthefestival.isantifestival.com





Fleiri fréttir

Sjá meira


×