Menning

Silence með margar útnefningar

Söngleikurinn Silence er tilnefndur til fimm La Drama Critics Circle-verðlauna við mikla ánægju Óskars Eiríkssonar hjá Theatermogul sem framleiddi söngleikinn. Hér er hann með systur sinni Signýju Eiríksdóttur. Fréttablaðið/Valli
Söngleikurinn Silence er tilnefndur til fimm La Drama Critics Circle-verðlauna við mikla ánægju Óskars Eiríkssonar hjá Theatermogul sem framleiddi söngleikinn. Hér er hann með systur sinni Signýju Eiríksdóttur. Fréttablaðið/Valli
„Við höfum aldrei fengið eins og góða dóma fyrir nokkra sýningu. Ég hef verið spurður hvort við höfum nokkuð borgað fyrir þessa dóma, sem voru eins og sannkölluð ástarbréf frá fjölmiðlum,“ segir Óskar Eiríksson hjá framleiðslufyrirtækinu Theatermogul, sem á heiðurinn að grínsöngleiknum Silence. Söngleikurinn hefur vakið mikla athygli vestanhafs og hefur hlotið flestar útnefningar á leiklistarverðlaunahátíðinni LA Drama Critics Circle sem fer fram þann 18. mars næstkomandi. Söngleikurinn er grínleikrit byggt á sögunni um mannætuna Hannibal Lecter í Silence of the Lambs og hefur gengið fyrir fullu húsi í New York frá frumsýningu í júlí 2011. „Við erum tilnefnd til fimm verðlauna á þessari hátíð, meðal annars fyrir bestu uppfærslu, tónlist og leikstjórn. Þar erum við í hópi með flottum Broadway-sýningum á borð við War Horse og The Book of Mormon, sem eru þær söluhæstu á Broadway í dag og því er þetta mikill heiður.“ Óskar segir að þau séu nú í viðræðum úti um allan heim um uppsetningu á söngleiknum. Einnig er áhugi fyrir að kvikmynda söngleikinn, en Óskar segist taka þeim fregnum með stakri ró enda sé það best í þessum geira. „Áhuginn er allavega mikill. Þetta ævintýri er rétt að byrja. Það hefur kostað okkur mikinn tíma og fjárfestingu sem lítur nú út fyrir að vera að skila sér.“





Fleiri fréttir

Sjá meira


×