Menning

Dansa snjódans á hverju kvöldi

Álfrún Pálsdóttir skrifar
Davíð Óskar Ólafsson og Ragnar Bragason er farið að lengja eftir að geta klárað tökur á málmhaus en snjóleysi á suðurlandi setur strik í reikninginn.
Davíð Óskar Ólafsson og Ragnar Bragason er farið að lengja eftir að geta klárað tökur á málmhaus en snjóleysi á suðurlandi setur strik í reikninginn.
„Þetta er búið að vera frekar pirrandi og komið á það stig að við erum farnir að dansa snjódansinn hérna á hverju kvöldi,“ segir Davíð Óskar Ólafsson hjá framleiðslufyritækinu Mystery sem heldur utan um myndina Málmhaus.

Málmhaus er nýjasta mynd leikstjórans Ragnars Bragasonar, en tökur á henni hófust seint á síðasta ári undir Eyjafjöllum. Tökuliðið hefur hins vegar verið í biðstöðu síðan um áramótin, þar sem snjóleysi á Suðurlandi hefur sett strik í reikninginn á tökunum. Þrír tökudagar eru eftir og segist Davíð aldrei hafa fylgst jafn vel með veðurspánni og undanfarnar vikur. „Okkur vantar að klára þessa þrjá tökudaga til að koma myndinni í fyrsta klipp, þannig að við erum að verða frekar óþolinmóðir. Við erum í daglegu sambandi við bónda undir Eyjafjöllum sem segir okkur hvernig veðrið er þar, en þegar snjóaði hér mikið í vikunni féll ekki eitt einasta snjókorn hjá þeim,“ segir Davíð, sem heldur þó í vonina um að geta klárað í næstu viku. „Margir þurfa að hverfa frá í önnur verkefni bráðum og við verðum að hafa skilning á því. Það er pirrandi að geta ekki stjórnað veðrinu en svona er þetta.“

Áætluð frumsýning á Málmhaus er í október, en með aðalhlutverk fara Ingvar E. Sigurðsson, Halldóra Geirharðsdóttir og Þorbjörg Helga Dýrfjörð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.