Innlent

Geta ekki veitt nægan stuðning

Sunna Valgerðardóttir skrifar
Svo mikil aðsókn er í tíma hjá Fjölskylduráðgjöfinni á Akureyri að gefist hefur verið upp á biðlistum og er forgangsröðun alfarið notuð.
Svo mikil aðsókn er í tíma hjá Fjölskylduráðgjöfinni á Akureyri að gefist hefur verið upp á biðlistum og er forgangsröðun alfarið notuð.
„Nú er sex vikna bið eftir að fá nýjan tíma," segir Karólína Stefánsdóttir, félagsráðgjafi hjá Fjölskylduráðgjöfinni á Akureyri. „Inn í þetta blandast svo alvarlegur skortur á heimilislæknum svo þetta er orðinn vítahringur. Fólk upplifir eilífa bið eftir stuðningi."

Stöðugildum hjá ráðgjöfinni hefur verið fækkað úr tveimur í eitt og hálft. Fyrir efnahagshrunið var eftirspurnin orðin svo mikil að til stóð að fjölga þeim í þrjú.

Karólína segir mannekluna orðna svo mikla að ekki sé lengur hægt að veita nýbökuðum foreldrum þá lágmarksþjónustu sem ráðgjöfinni beri að veita.

Forsvarsmenn stöðvarinnar sendu velferðarráðherra, formanni velferðarnefndar Alþingis og þingmönnum Norðausturkjördæmis bréf í febrúar síðastliðnum þar sem skýrt var frá erfiðri stöðu stofnunarinnar.

Þá var einnig vakin athygli á hagkvæmni hennar, bæði í velferðar- og þjóðhagslegu tilliti. Ekkert svar hefur borist frá ráðamönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×