Menning

Grant semur tónlist fyrir íslenskt leikrit

Freyr Bjarnason skrifar
Frá vinstri: John Grant, Snorri Engilbertsson, Elma Stefanía Ágústsdóttir, leikmyndahönnuðurinn Eva Berger og Una Þorleifsdóttir.
Frá vinstri: John Grant, Snorri Engilbertsson, Elma Stefanía Ágústsdóttir, leikmyndahönnuðurinn Eva Berger og Una Þorleifsdóttir.
Bandaríski tónlistarmaðurinn John Grant semur tónlistina í leikritinu Getum við hætt að tala um Noreg? sem verður frumsýnt í Þjóðleikhúsinu í haust.

Leikstjóri er Una Þorleifsdóttir og höfundur verksins er Mikael Torfason. „Við Mikael erum bæði mjög hrifin af tónlistinni hans og við ákváðum að sjá hvort hann hefði áhuga á að starfa með okkur. Hann hafði það og við vorum svo heppin að fá hann til liðs við okkur,“ segir Una.

Þetta verður í fyrsta sinn sem Grant semur tónlist fyrir leikhús og að sögn Unu er hann mjög spenntur fyrir verkefninu. „Hann hafði áhuga á að starfa í þessum miðli. Þetta var nýtt fyrir honum og honum fannst þetta mjög spennandi.“ Grant hefur fengið mjög góða dóma bæði hér heima og erlendis fyrir nýjustu plötu sína, Pale Green Ghosts, sem var hljóðrituð hér á landi.

Getum við hætt að tala um Noreg? fjallar um samband ungs pars og hvernig pör almennt geta misst stjórn á samskiptum sínum. „Þau fara inn í rútínu sem er á einhvern hátt ofbeldisfull, bæði andlega og líkamlega,“ segir Una.

Með aðalhlutverk fara Elma Stefanía Ágústsdóttir og Snorri Engilbertsson. Þrátt fyrir nafn verksins segir hún Noreg ekki vera áberandi í því. „Í sjálfu sér ekki, nema kannski sem hugmynd um fyrirheitna landið. Að flýja eitthvert annað til að fá lausn á vandamálunum.“

Una er lektor við Listaháskóla Íslands og hefur leikstýrt töluvert í Nemendaleikhúsinu. Næst stýrir hún verkinu Nú er himneska sumarið komið, eftir Sigtrygg Magnason, sem verður frumsýnt í Árbæjarsafni 13. apríl.

Getum við hætt að tala um Noreg? er fyrsta leikritið sem Una leikstýrir á stóru sviði. „Þetta verður mjög spennandi verkefni. Bæði eru þetta ný, íslensk skrif úr samtímanum og það er líka spennandi að fá tækifæri til að vinna í þessu húsi og með þessum ungu leikurum.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×