Bandaríski kylfingurinn Bubba Watson á titil að verja á Augusta National-vellinum á Masters-mótinu. Hann vann mótið í fyrra eftir bráðabana við Louis Oosthuizen frá Suður-Afríku. Watson sló ótrúlegu höggi úr vonlausri stöðu inn á flöt á annarri holu bráðabanans og tryggði sér sigur.
Höggið er talið eitt það ótrúlegasta í sögu golfsins en Watson náði að láta boltann taka nánast 90 gráðu vinkilbeygju og inn á flöt í fuglafæri eftir að hafa verið umkringdur trjám.
Watson er einn af skemmtilegri kylfingum á PGA-mótaröðinni. Hann er ærslafullur bæði innan vallar sem utan og leikur hans er ólíkur leik flestra. Þótt alla dreymi um að vinna risamót fylgir því oft aukin athygli og í íþróttum getur það haft slæm áhrif á frammistöðu.
Watson hefur fundið fyrir athyglinni

Það varð honum kannski til happs að hann og eiginkona hans, Angie, ættleiddu á sama tíma son og því fór mikill tími hjá Watson í að annast nýjasta fjölskyldumeðliminn.
„Ég sleppti nokkrum mótum eftir að við eignuðumst Caleb. Ég náði þar með að slaka á með fjölskyldunni og endurstilla mig.“
Golfið í fyrsta sætið

Hann gæti vel orðið fjórði kylfingurinn í sögu Masters-mótsins til að verja titil sinn um helgina. Jack Nicklaus, Nick Faldo og Tiger Woods hafa afrekað það. Þó að Watson hafi ekki leiðst að sýna sig í spjallþáttum í græna jakkanum eftir sigurinn á síðasta ári heldur hann báðum fótum á jörðinni.
„Umboðsmaðurinn minn gaf mér gott ráð strax eftir sigurinn á Masters. Hann ráðlagði mér að setja golfið í fyrsta sætið. Við sögðum nei við mörgum beiðnum frá fjölmiðlum. Bubba Watson er fyrst og fremst kylfingur, höfðum þetta einfalt og golf var alltaf númer eitt.“
