Menning

Skipuleggja hátíð á Stöðvarfirði

Sara McMahon skrifar
Viktor Pétur, Marteinn Sindri, Katrín Helena og Gígja Sara skipuleggja tónlistarhátíðina Pólar sem haldin verður á Stöðvarfirði í sumar.
Viktor Pétur, Marteinn Sindri, Katrín Helena og Gígja Sara skipuleggja tónlistarhátíðina Pólar sem haldin verður á Stöðvarfirði í sumar. Fréttablaðið/Valli
„Katrín og Marteinn eru systkini og frændsystkini mín. Fjölskylda þeirra á gistiheimili á Stöðvarfirði og þau kynntu mig upprunalega fyrir bænum. Sjálfur tók ég svo þátt í Æringi fyrir þremur árum og kynntist þá fólki sem býr á staðnum. Í haust keyptum við kærasta mín svo hús í bænum,“ segir Viktor Pétur Hannesson um upphaf ástarævintýris síns og Stöðvarfjarðar. Hann skipuleggur tónlistar- og menningarhátíð í bænum ásamt Marteini Sindra og Katrínu Helenu Jónsbörnum og Gígju Söru H. Björnsson. Hún nefnist Pólar Festival og fer fram helgina 12. til 14. júlí í tengslum við bæjarhátíðina Maður er manns gaman.

Viktor segir hátíðina eins konar smiðjuhátíð í ætt við Lunga, fólk kemur og deilir hæfileikum sínum með öðrum í formi námskeiða og vinnusmiðja. Fjórmenningarnir fengu nýverið peningastyrk frá Austurbrú og var það þeim mikil hvatning. „Með hátíðinni viljum við styrkja þá starfsemi sem er í bænum. Svona hátíðir virðast vera góð leið til að fá fólk á staðinn og það getur svo leitt margt skemmtilegt af sér, eins og sjá má með Lunga á Seyðisfirði,“ segir hann.

Umsóknarfrestur rennur út á föstudag. Nánari upplýsingar má finna á Facebook.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×