Menning

Sjö samúræjar í Elliðaárdalnum

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Fimm karlmenn og tvær konur fara með hlutverk samúræjanna sjö.
Fimm karlmenn og tvær konur fara með hlutverk samúræjanna sjö.
"Við erum ekkert að herma eftir Japönum, enda erum við ekki Japanar,“ segir Guðmundur Erlingsson, höfundur leikgerðarinnar og leikstjóri sýningarinnar Sjö samúræjar, sem frumsýnd verður í Elliðaárdalnum á morgun. Leikgerðin byggir á hinni frægu kvikmynd Akira Kurosawa um samúræjana sjö, en Guðmundur segir auðvitað óhugsandi að koma öllu efni þriggja tíma kvikmyndar fyrir í klukkustundarlangri sýningu. „Grunnsagan er þó til staðar, en við þurfum að einfalda ansi mikið og sleppa úr. Við erum heldur ekkert að eltast við að gera eins og myndin enda er það ekki hægt. Við búum til hliðarheim sem vísar í heim myndarinnar, en þó er ekki um staðfæringu að ræða og sögusviðið er Japan.“

Guðmundur Erlingsson.
Leikfélagið Sýnir, hvað er það? „Leikfélagið Sýnir er hálfgert regnhlífarleikfélag áhugaleikfélaga á Íslandi. Hefur aðallega verið starfandi á sumrin og sett upp fimm sýningar í Elliðaárdalnum og víðar, meira að segja eina uppi á Hveravöllum,“ segir Guðmundur.

Rúmlega tuttugu manns taka þátt í sýningunni og tveir af samúræjunum eru leiknir af konum. Guðmundur segir kyn leikara ekki hafa skipt meginmáli þegar valið var í hlutverk. Eftir á að hyggja hefði kannski verið gaman að láta karlmenn fara með kvenhlutverk en það verði að bíða betri tíma.

Einungis verða fjórar sýningar á verkinu og hefjast þær allar klukkan 20. Hér er um útileiksýningu að ræða þar sem náttúra Elliðaárdalsins nýtur sín til fulls í bakgrunninum og áhorfendur eru leiddir um dalinn til að fylgja sögunni af hetjunum sjö sem taka að sér að vernda fátæka bændur fyrir ofríki grimmra ræningja. Lagt er af stað frá Félagsheimili Orkuveitunnar. Engin forsala verður á miðum, enda frekar ólíkt að uppselt verði á utanhússsýningar, en Guðmundur hvetur fólk til að mæta í fyrra fallinu, þar sem sýningin fer um víðan völl og mikilvægt að allir fylgist að. „Við verðum bara að vona að veðurguðirnir verði okkur hliðhollir og hvetjum fólk til að klæða sig eftir veðri,“ segir leikstjórinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×