Sport

Spjót Ásdísar brotnuðu á leið til Íslands

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ásdís þurfti að fá ný keppnis- og æfingaspjót.
Ásdís þurfti að fá ný keppnis- og æfingaspjót. nordicphotos/getty
Spjótkastarinn Ásdís Hjálmsdóttir varð fyrir því óláni að missa öll sín helstu spjót á einu bretti. „Það varð smá óhapp á leiðinni til Íslands og þau brotnuðu,“ sagði hún í samtali við Fréttablaðið.

Ásdís missti tvö bestu keppnisspjótin sín og besta æfingaspjótið þar að auki. Hún á þó þegar von á nýjum spjótum frá sínum styrktaraðilum.

„Nordic mun senda mér nýtt keppnisspjót og ég vona að það hafist fyrir HM,“ sagði Ásdís en hún keppir á HM í Moskvu um miðjan næsta mánuð.

„Svo fæ ég líka spjót frá Sporttækjum, auk þess sem ég á nokkur æfingaspjót hér heima. Þannig að þetta hefst allt saman. Það er gott að eiga góða að,“ segir hún og bætir við að æfingar hafi gengið vel hjá sér í sumar.

„Árangurinn í mótum hefur reyndar ekki endurspeglað það sem er pirrandi. En svona er þessi grein, það þarf að hitta á réttan dag og þá getur eitt kast breytt öllu,“ segir hún en Íslandsmet hennar er 62,77 m.

Ásdís keppir í spjótkasti í dag en heldur svo utan strax á morgun í æfingabúðir fyrir HM. „Það var ætlunin að keppa í kúluvarpi líka en það verður að bíða betri tíma.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×