Menning

Féll fyrir Jóni sextán ára og elskar hann enn

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Ásdís hefur skrifað bæði heimildarmyndarhandrit og leikrit um sögu Jóns lærða og er ein þeirra sem eiga grein í safninu Í spor Jóns lærða.Fréttablaðið/Arnþór
Ásdís hefur skrifað bæði heimildarmyndarhandrit og leikrit um sögu Jóns lærða og er ein þeirra sem eiga grein í safninu Í spor Jóns lærða.Fréttablaðið/Arnþór
Í spor Jóns lærða nefnist veglegt rit sem er nýkomið út hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi. Þar skrifar valinn hópur fólks um Jón lærða út frá ýmsum sjónarhornum. Meðal þeirra er Ásdís Thoroddsen kvikmyndaleikstjóri, sem hefur lengi haft brennandi áhuga á Jóni og sögu hans. „Þegar ég var sextán ára átti ég leið um slóðir Jóns og heyrði þá af honum og sögu hans. Fór upp úr því að lesa mér til um Spánverjavígin og fannst þessi persóna svo sérstök að ég gat ekki hætt að hugsa um hann.“



Ásdís segir Jón hafa verið á skjön við samtíð sína og á vissan hátt hafi hann hugsað eins og nútímamaður. „Hann fylgdi eigin samvisku, ekki því sem var lögboðið eða fyrirskipað, og í greininni er ég að skoða hvernig samskiptum hans við höfðingja og yfirvöld var háttað. Þau voru ekki bara á einn veg heldur líka jákvæð. Vissulega var hann á hrakningum í þrjátíu ár en jafnframt báru þeir virðingu fyrir honum. Endurreisnarstefnan, renesansinn, var hundrað ár að komast hingað norður eftir en á hans tíma var hún komin. Jón vissi óhemjumikið um fornöld okkar og menntamenn tóku hann upp á sína arma til að fá hlutdeild í þeirri vitneskju. Sagan sagði að það hefði orðið honum til lífs hvað hann talaði mikið. Það var svo eiginlega Brynjólfur Sveinsson biskup sem náðaði hann, ef svo má segja, og veitti honum skjól í ellinni.“



Þetta er magnað efni. Þér hefur ekki dottið í hug að gera kvikmynd um Jón lærða? „Jú, en það kostar mjög mikið að gera svona sögulegar myndir. Íslendingar einir eiga bágt með að gera slíkar myndir og snertiflötur útlendinga við þennan mann er lítill en þetta mætti alveg skoðast. Maður á aldrei að gefast upp.“



Ásdís hefur reyndar þegar dramatíserað ævi Jóns því hún skrifaði um hann heimildarmyndarhandrit fyrir nokkrum árum sem hún byggði á frásögn hans sjálfs af Spánverjavígunum. „Útlendingum þótti efnið of sértækt og íslenskt á þeim tíma og vildu ekki styrkja það en þá var Ísland reyndar ekki komið í tísku. Það er hins vegar enginn vafi á því að Jón lærði og líf hans er heldur betur söguefni.“



Hjörleifur Guttormsson ritstýrir bókinni Í spor Jóns lærða og auk fjölda ritgerða um Jón segir Sjón þar frá tilurð Rökkurbýsna og Margrét Jónsdóttir Njarðvík fjallar um skáldsöguna Ariasman. Auk þess fylgir bókinni geisladiskur þar sem er að finna viðtöl, hljóðfæraleik, ljóðalestur og kafla úr útvarpsleikritinu Sönn frásaga sem Ásdís skrifaði um Jón og upplifun hans af Spánverjavígunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×