„Ísland er orðið hluti af mínum minningabanka, minni persónu. Hluti af mér,“ segir Mazen Maarouf, palestínskt ljóðskáld og þýðandi sem gefur út ljóðabókina, Ekkert nema strokleður, á fimmtudaginn næstkomandi.
Mazen var bjargað hingað til lands árið 2011 af samtökunum ICORN í samstarfi við Reykjavíkurborg eftir að honum bárust líflátshótanir vegna blaðaskrifa sinna um stjórnmál í Miðausturlöndum.
Sjálfur er Mazen palestínskur að uppruna en hefur alla tíð haft stöðu flóttamanns í Líbanon. Hann fæddist árið 1978 í Beirút í Líbanon. Hann lauk meistaranámi í efnafræði frá raunvísindadeild Háskólans í Líbanon, en sneri sér fljótlega að ritlist. Fyrsta ljóðabók hans kom út árið 2000. Einnig hefur hann fjallað um bókmenntir og listir í arabískum blöðum og tímaritum.
Þá gerði fréttaveitan Al-Jazeera heimildamynd um Mazen á dögunum.
Bók Mazens markar viss tímamót en afar fá verk úr bókmenntaheimi arabískrar tungu hafa ratað hingað til lands.
„Við settum saman eins konar þýðendabúðir,“ segir Mazen.
„Þar sem hugmyndin var að útlensk skáld búsett á Íslandi fengu ljóðin sín þýdd yfir á íslensku. Ég kom þá með hugmyndina að því að við myndum hafa það líka öfugt, það er að segja að útlensku skáldin myndu einnig þýða íslensk ljóð yfir á sín tungumál,“ bætir Mazen við.
Hann hefur undanfarin misseri unnið að þýðingum íslenskra bókmennta á arabísku og þýtt hátt í þrjátíu íslensk skáldverk, þar á meðal eftir Sjón, Stein Steinarr og Sigurbjörgu Þrastardóttur.
„Bókin inniheldur tuttugu og átta ljóð eða texta, sem eru á arabísku og á íslensku,“ heldur Mazen áfram.
„Þetta er mjög persónulegt verk fyrir mig. Ljóðin skrifaði ég flest í Beirút og gaf út þar, en ég gat ekki verið viðstaddur neinn opinberan viðburð um bókina. Ég bjó í þrjátíu og þrjú ár í Beirút þar sem ég hafði engin réttindi. Á Íslandi hef ég fengið að búa eins og allir hinir og hlotið mannréttindi sem ég hef aldrei áður kynnst,“ segir Mazen.
Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, Kári Tulinius og Sjón íslenskuðu ljóðin.
Mazen Maarouf hefur verið búsettur í Reykjavík frá því síðla árs 2011 og er einn af höfundum Bókmenntahátíðar í ár.
Útgáfugleði verður haldin á Kex Hostel við Skúlagötu á fimmtudaginn klukkan 5.
Menning