Menning

Barna- og unglingabækur fá eigin flokk

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Egill Örn segir umræðuna um sérstakan flokk barna- og unglingabóka hafa staðið lengi yfir.
Egill Örn segir umræðuna um sérstakan flokk barna- og unglingabóka hafa staðið lengi yfir. Fréttablaðið/Anton
Það hefur verið í umræðunni í töluverðan tíma að það þurfi að gera barnabókum jafn hátt undir höfði og öðrum bókmenntagreinum og það má segja að við séum að koma til móts við þá umræðu,“ segir Egill Örn Jóhannsson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, spurður um ástæðu þess að ákveðið hefur verið að bæta flokknum barna- og unglingabækur við verðlaunaflokka Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Það verða því höfundar þriggja bóka sem hljóta munu Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir árið 2013. Verðlaunafé í flokki barnabóka verður það sama og í hinum flokkunum, ein milljón.

Eina barnabókin sem hlotið hefur Íslensku bókmenntaverðlaunin er Sagan af bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason.Fréttablaðið/Stefán
Barnabækur hafa reyndar alltaf verið gjaldgengar til tilnefninga og frá því til verðlaunanna var stofnað hafa þrjár slíkar verið tilnefndar: Sagan af bláa hnettinum, eftir Andra Snæ Magnason – tilnefnd í flokki fagurbókmennta árið 1999, Skrýtnastur er maður sjálfur, eftir Auði Jónsdóttur – tilnefnd í flokki fræðirita og bóka almenns eðlis árið 2002 og Öðruvísi fjölskylda, eftir Guðrúnu Helgadóttur – tilnefnd í flokki fagurbókmennta árið 2004. Aðeins ein barnabók hefur hins vegar hlotið verðlaunin í þau 23 ár sem þau hafa verið veitt, það var Sagan af bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason.

Egill segir mikla grósku í ritun barna- og unglingabóka og að það séu á milli 45 og sextíu verk sem gjaldgeng verði til tilnefninga í haust. Spurður hvort það sé ekki líka meiri nýgræðingur í barnabókaskrifunum en öðrum bókmenntagreinum dregur hann við sig svarið og bendir á að það sé algengt að fólk byrji að fóta sig á ritvellinum með því að skrifa barnabækur en snúi sér síðar að ritun bóka fyrir fullorðna. „Það er þó engan veginn einhlítt, sem betur fer,“ segir hann. „Margir af okkar góðu höfundum hafa einbeitt sér að því að skrifa fyrir börn og unglinga, sem er mikið fagnaðarefni.“

Eins og tíðkast við val á bókum til tilnefninga í hinum flokkunum tveimur – fagurbókmenntum og flokki fræðirita og bóka almenns eðlis – verður skipuð þriggja manna valnefnd og tilnefningar birtar þann 1. desember í öllum flokkum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.