Fótbolti

AGF finnur sér nýjan Marka-Aron

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nýr marka-aron Víkingurinn Aron Elís Þrándarson.
Nýr marka-aron Víkingurinn Aron Elís Þrándarson. Mynd/Arnþór
Aron Jóhannsson sló í gegn hjá danska félaginu AGF á sínum tíma og var síðan seldur til hollenska liðsins AZ Alkmaar þar sem hann raðar inn mörkum.

Danirnir telja sig vera búnir að finna uppskriftina því þeir eru búnir að finna annan Aron. Líkt og þegar þeir fengu Aron frá b-deildarliði Fjölnis þá sækja þeir nýja Aroninn í íslensku b-deildina.

Aron Elís Þrándarson, sem er 19 ára gamall, skoraði 14 mörk í 14 leikjum með Víkingum í 1. deildinni í sumar og átti mikinn þátt í því að Fossvogsliðið vann sér sæti í Pepsi-deildinni á ný. Aron skoraði 12 mörk í 18 leikjum fyrir Fjölni í b-deildinni sumarið 2010, sitt síðasta tímabil á Íslandi. Báðir voru þeir markahæstir í deildinni.

Magnús Agnar Magnússon, er umboðsmaður Arons Elísar en hann er einnig umboðsmaður Arons Jóhannssonar. „AGF hefur verið á Íslandi og séð hann spila. Þeir voru búnir að ákveða það fyrir löngu að bjóða honum til Danmerkur svo þeir gætu skoðað hann betur,“ sagði Magnús Agnar við tipsbladet.dk.

„Aron Elís er meiri tía en Aron Jóhannsson og er því að skora mörkin sín á annan hátt. Hann er hávaxinn, örvfættur og er mjög góður leikmaður. Allir stóru klúbbarnir á Íslandi vildu fá hann til sín,“ segir Magnús Agnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×