Menning

Samdi glæpasögu á næturvöktum

Sara McMahon skrifar
Gefur út Kári Valtýsson lögfræðingur gaf nýverið út sína fyrstu skáldsögu, Afleiðingar.
Gefur út Kári Valtýsson lögfræðingur gaf nýverið út sína fyrstu skáldsögu, Afleiðingar. Fréttablaðið/vilhelm
„Ég vann á næturvöktum eitt sumar og hafði lítið að gera á þeim. Ég ákvað að prófa að skrifa glæpasögu á þessum vöktum og áður en ég vissi af var ég kominn með handrit að bók,“ segir lögfræðingurinn Kári Valtýsson.

Hann gaf nýverið út sína fyrstu skáldsögu á vegum Útgáfunnar. Bókin nefnist Afleiðingar og er gefin út sem rafrit.

Afleiðingar segir frá starfsmanni byggingarvöruverslunar sem vaknar blóðugur í baðkari í ókunnugri íbúð. Samstarfskona hans finnst svo myrt skömmu síðar og telur lögreglan að málin séu tengd. Aðspurður kveðst Kári hafa viljað skrifa glæpasögu sem „sögð er af hliðarlínunni“. Innblásturinn sótti hann svo víða.

„Eitthvað er sótt í eigin reynslubanka, ég vann til að mynda í byggingarvöruverslun þegar ég var ungur. Í náminu les maður líka fullt af dómum sem hafa nýst manni sem innblástur. En þetta er auðvitað skáldskapur fyrst og fremst.“

Kári starfar sem lögfræðingur hjá Acta lögmannsstofu. Hann hefur ekki í hyggju að leggja þann frama á hilluna í þeim tilgangi að gerast rithöfundur. „Mér finnst mjög gaman að skrifa og er þegar kominn með uppkast að nýrri bók en ég ætla að einbeita mér að lögfræðinni í bili.“

Kári, sem er 28 ára gamall og tveggja barna faðir, segist helst stunda skriftir á nóttunni þegar fjölskyldan er sofnuð. „Ég er heppinn að eiga ofsalega góða fjölskyldu sem sýnir þessu áhugamáli mikinn stuðning…upp að vissu marki,“ segir hann að lokum og hlær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×