Menning

Safnaði á Kickstarter fyrir Íslandsbók

Freyr Bjarnason skrifar
Edward Hancox safnaði fyrir útgáfu bókarinnar í gegnum Kickstarter.
Edward Hancox safnaði fyrir útgáfu bókarinnar í gegnum Kickstarter.
Bók Englendingsins Edwards Hancox, Iceland, Defrosted, hefur fengið góð viðbrögð síðan hún kom út. Hann safnaði fyrir útgáfu hennar á vefsíðunni Kickstarter.

„Bókin fjallar um þráhyggju mína sem Englendingur fyrir stöðunum, fólkinu og tónlistinni á Íslandi,“ sagði Hancox, sem heimsótti Ísland fyrst fyrir níu árum.

„Eftir alla erfiðisvinnuna sem fór í að skrifa hana, þurfti ég að ná Iceland, Defrosted af harða drifinu í tölvunni yfir á kaffiborðin. Án hins ótrúlega stuðnings allra bakhjarla minna á Kickstarter hefði ég eytt stórum hluta af lífi mínu í að skrifa eitthvað sem enginn annar hefði lesið.“

Í dómi tímaritsins National Geographic Traveller um bókina segir: „Mjög persónuleg bók um þráhyggju Englendings varðandi allt sem er íslenskt. Hjartnæm frásögn þar sem lögð er áhersla á fólkið og reynslu þess.“ Breskir fjölmiðlar hafa einnig farið lofsamlegum ummælum um hana.

Í bókinni skrifar Hancox töluvert um íslenska tónlist og tekur viðtöl við Sóleyju, Lay Low, Ólaf Arnalds, Snorra Helgason og Hafdísi Huld.

Hancox hefur skrifað fjölmargar blaðagreinar um Ísland sem hafa birst í Iceland Review, Atlantica og Reykjavík Grapevine.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×