Menning

Á rennandi blautum ullarsokkunum

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Flest stærstu fyrirtæki landsins nýttu sér þjónustu Rafskinnu, enda nutu auglýsingasýningarnar gríðarlegra vinsælda.
Flest stærstu fyrirtæki landsins nýttu sér þjónustu Rafskinnu, enda nutu auglýsingasýningarnar gríðarlegra vinsælda.
Sýning á gömlum auglýsingum úr Rafskinnu var opnuð í Galleríi Fold í gær. Rafskinna setti mikinn svip á bæjarlífið um miðbi k síðustu aldar, en hún var alfarið hugmynd Gunnars Bachmann sem fékk innblástur að henni í París og lét smíða bókina hér heima.

Tvisvar á ári var Rafskinna sett niður við hlið Hressingarskálans í miðbæ Reykjavíkur og þar gat fólk séð auglýsingar flettast sjálfkrafa í þessari rafknúnu bók sem kölluð var töfrabókin,“ útskýrir Hrefna Bachmann, barnabarn Gunnars Bachmann, sem var eigandi, hugmynda- og textasmiður Rafskinnu.



„Afi fór til Parísar árið 1932 og sá þar svipaða bók, kom heim og lét smíða þessa hjá blikksmiðju í Reykjavík,“ heldur Hrefna áfram. „Þetta var algjör nýjung í bæjarlífinu á þessum tíma og fólk kom bara „á rennandi blautum ullarsokkunum“, eins og var sagt í einhverri blaðagrein frá þessum tíma, til að skoða dýrðina. Mamma man eftir því að hafa verið þarna uppáklædd að skoða auglýsingarnar og svo var farið á eftir og keyptur ís, þetta var hálfgerð hátíð.“



Teiknarar Rafskinnu voru þeir Tryggvi Magnússon, sem teiknaði frá 1933-1943 og Jón Kristinsson, Jóndi í Lambey, sem tók við af Tryggva og teiknaði þar til Rafskinna var tekin niður í síðasta sinn árið 1957. „Bókin var sett upp tvisvar á ári, fyrir jól og páska, alveg frá 1933 til 1957,“ segir Hrefna. „Afi dó svo 1957 og eftir það lögðust sýningarnar niður.“



Auk sýningarinnar í Galleríi Fold verða myndirnar til sýnis á hundrað strætóskýlum víðs vegar um bæinn frá og með næsta þriðjudegi. Í tilefni af sýningunni hafa verið gerðar eftirprentanir af völdum myndum úr Rafskinnu auk þess sem hægt verður að festa kaup á póstkortum með myndum úr henni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.