Menning

Yndislegir eins og ferð til himnaríkis

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Ég hvet sem flesta til að koma inn í þennan töfraheim,“ segir Sigríður Ingvarsdóttir um tónleikana á morgun.
"Ég hvet sem flesta til að koma inn í þennan töfraheim,“ segir Sigríður Ingvarsdóttir um tónleikana á morgun.
„Við erum að styrkja geðgjörgæslusvið Landspítalans og ég lofa að þetta verða yndislegir tónleikar. Bara eins og ferð til himnaríkis,“ segir Sigríður Ingvarsdóttir, formaður Caritasar Ísland – sem heldur árlega tónleika á morgun, sunnudag. Umgjörðin er hátíðleg, sjálf kaþólska kirkjan á Landakotstúni og á efnisskrá verða meðal annars verk eftir Bach, Elgar, Handel, Mozart, Atla Heimi Sveinsson, Sigvalda Kaldalóns og Þorkel Sigurbjörnsson.



Einsöngvarar á tónleikunum eru þau Kristján Jóhannsson og Elsa Waage sem bæði hafa fagrar raddir og yndislega framkomu og syngja sitt í hvoru lagi og saman að sögn Sigríðar. Ekki spillir Hamrahlíðarkórinn stemningunni, hann kemur fram undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur. Svava Bernharðsdóttir víóluleikari og Antonia Hevesi, sem leikur á orgel, leggja líka sitt af mörkum að ógleymdri Guðnýju Guðmundsdóttur sem hefur um árabil verið einn fremsti fiðluleikari þjóðarinnar og kemur fram með sveit af afburðanemendum.

„Þetta unga fólk á örugglega eftir að vinna í alþjóðlegum keppnum og gegna mikilvægum stöðum, bæði hér heima og erlendis í framtíðinni,“ spáir Sigríður sem tekur fram að allir listamennirnir gefi vinnu sína til aðstoðar þeim veikustu á geðdeild Landspítalans.



Sigríður segir margt fólk mæta reglulega á Caritasar tónleika, bæði til að njóta fagurra lista og leggja góðu málefni lið. „Fyrir marga marka eru tónleikarnir upphafið að aðventunni,“ segir hún. Hátíðleikinn verður í fyrirrúmi þar sem flutt verður tónlist allt frá endurreisnartímanum til dagsins í dag.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×