Tíska og hönnun

Ný fatalína með ljósmyndum af íslenskri náttúru

Marín Manda skrifar
Heiðrún Ósk Sigfúsdóttir
Heiðrún Ósk Sigfúsdóttir Myndir/ Atli Már Hafsteinsson
"Ég stofnaði fyrirtækið mitt, Dimmblá, snemma á þessu ári og hannaði fyrstu fatalínuna með norðurljósin sem þema því þau eru glæsilegt sjónarspil í einstakri náttúrufegurð Íslands,“ segir Heiðrún Ósk Sigfúsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Dimmblá.

Fatalínan kemur á markað innan skamms en hún varð að veruleika í samstarfi við landslagsljósmyndarann Sigurð Hrafn Stefnisson en ljósmyndir hans af norðurljósunum eru prentaðar á flíkurnar.

"Það er mikill heiður að fá að nota myndir Sigurðar í fyrstu línu Dimmblár því hann er talinn meðal þeirra fremstu á þessu sviði á Íslandi,“ segir Heiðrún Ósk.

 

Hún segist bera mikla umhyggju fyrir íslenskri náttúru og telur mjög dýrmætt að Íslendingar eigi ósnortna náttúru.

Verkefni af þessu tagi kostar skildinginn og því hefur Heiðrún Ósk óskað eftir aðstoð frá velunnurum til að greiða niður framleiðslukostnaðinn. 

Hægt er að styrkja verkefnið á hópfjármögnunarvefsíðunni Karolina Fund til 31. desember.

„Þetta er frábær leið fyrir lítil fyrirtæki sem eru að hefja rekstur til að fjármagna verkefnin sín. Þeir sem styrkja Dimmblá um ákveðna upphæð geta valið sér flík úr nýju fatalínunni svo að þeir sem styrkja mig eru jafnframt að tryggja sér flík úr þessari fallegu fatalínu.“

Fyrirsæta Ásdís Svava Hallgrímsdóttir





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.