Menning

Eins kærkomið happ og hugsast getur

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Við afhendinguna: Jónas Ingimundarson, Aino Freyja Järvelä, Kristján Jóhannesson og Þórður Júlíusson.
Við afhendinguna: Jónas Ingimundarson, Aino Freyja Järvelä, Kristján Jóhannesson og Þórður Júlíusson.
„Ég er mjög þakklátur. Styrkurinn kemur sér ákaflega vel því ég er á leiðinni út til Vínar í janúar en skólinn byrjar ekki fyrr en í febrúar og ég þarf að taka þátt í verkefni áður, launalaust.“ Þetta segir Kristján Jóhannesson söngvari um 500 þúsund króna styrk sem hann tók við í gær úr styrktarsjóði Önnu K. Nordal.



Kristján upplýsir að verkefnið sé nemendauppfærsla á barnaóperunni Hans og Grétu eftir Engelbert Humperdinck sem sett verður upp við skólann sem hann er að hefja nám í. „Ég hef engan rétt á námslánum fyrr en ég byrja fyrir alvöru í skólanum í febrúar og þess vegna er styrkurinn eins kærkomið happ og hugsast getur.“ Skólinn sem Kristján talar um er Konservatoríið í Vínarborg. Þar hyggst hann dvelja við BA-nám í fjögur ár. „Svo er það bundið því hvernig gengur hvað ég geri.“



Kristján lauk burtfararprófi í vor frá Söngskóla Sigurðar Demetz. Kennarar hans voru Sigrún Hjálmtýsdóttir, Kristján Jóhannsson og Keith Reed. Nú í haust þreytti hann frumraun sína sem einsöngvari hjá Íslensku óperunni í Carmen. Hann hefur líka verið í fastakór óperunnar og sungið með honum í La bohème og Il trovatore.

Kristján er tuttugu og eins árs og kveðst vita um fleiri íslenska nemendur við Konservatoríið. Meðal þeirra sem stunda þar nám er kærastan hans, Fjóla Kristín Nikulásdóttir, sem er í mastersnámi. Hann kveðst hafa dvalið hjá henni tvo mánuði síðastliðið vor. „Það var þá sem ég sótti um,“ segir hann.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×