Enski boltinn

Franska byltingin byrjuð í Newcastle | Öll úrslit dagsins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Moussa Sissoko var hetja Newcastle sem vann 3-2 sigur á Chelsea. Arsenal og West Ham unnu sína leiki en öðrum lyktaði með jafntefli.

Sissoko er einn fjölmargra Frakka sem Newcastle hefur keypt til félagsins að undanförnu og hann sló heldur betur í gegn í sínum fyrsta leik á St. James' Park í dag.

Jonas Gutierrez hafði komið Newcastle yfir í lok fyrri hálfleiks en þeir Frank Lampard og Juan Mata komu Chelsea yfir, 2-1, með tveimur glæsilegum mörkum í upphafi síðari hálfleiks.

En þá tók Sissoko til sinna mála. Hann jafnaði metin á 68. mínútu og tryggði svo Newcastle sigur með marki í blálok leiksins. Hann skoraði með hnitmiðuðu skoti rétt utan vítateigs.

Demba Ba, fyrrum leikmaður Newcastle, var í byrjunarliði Chelsea í dag en varð að fara af velli í fyrri hálfleik eftir að hafa fengið þungt höfuðhögg en Fabricio Coloccini sparkaði í andlit hans.

Arsenal vann Stoke, 1-0, með marki Lukas Podolski úr aukaspyrnu. Skotið breytti hins vegar um stefnu á varnarmanni og kom Asmir Begovic, markvörður Stoke, því engum vörnum við.

Begovic hafði fram að því haldið sínum mönnum á floti í leiknum þar til að Podolski skoraði á 78. mínútu.

Aston Villa komst í 3-1 forystu gegn Everton en Marouane Fellaini skoraði þá tvívegis fyrir Everton og bjargaði stigi fyrir sína menn. Jöfnunarmark hans kom í uppbótartíma.

Reading vann mikilvægan sigur í fallbaráttunni er liðið hafði betur gegn Sunderland, 2-1. Jimmy Kebe skoraði bæði mörk Reading í leiknum.

Þá var Andy Carroll hetja West Ham en hann skoraði eina mark leiksins í igri á Swansea. Þetta var hans fyrsti leikur í byrjunarliði í nóvember.

Að síðustu gerðu Wigan og Southampton 2-2 jafntefli í fallbaráttuslag. Shaun Maloney skoraði jöfnunarmark Wigan á 89. mínútu.

Smelltu á leikina hér fyrir neðan til að sjá alla markaskorara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×