Lífið

Sheryl Sandberg varpað í Bíó Paradís

Bryndís Jónatansdóttir er einn aðstandenda TEDxReykjavík.
Bryndís Jónatansdóttir er einn aðstandenda TEDxReykjavík. MYND/ Sigríður Ása Júlíusdóttir
„Meðal fyrirlesara verða Sheryl Sandberg, COO hjá Facebook og höfundur bókarinnar Lean In,“ segir Bryndís Jónatansdóttir, einn aðstandanda TEDxReykjavík, en í kvöld mun TEDxReykjavík í samstarfi við Bíó Paradís bjóða upp á beina útsendingu frá TEDWomen ráðstefnunni sem haldin er í San Francisco. Dagskráin hefst klukkan 17.00.

„Þetta er þriðja árið í röð sem TEDWomen ráðstefnan er haldin og áherslan í ár er á uppfinningar. Allt frá nýjustu tækniframförum yfir í hvernig finna má nýjar leiðir til að uppræta fátækt,“ segir Bryndís jafnframt.

TEDWomen er hluti af TED, samtökum sem hafa það að markmiði að færa saman helstu hugsuði okkar tíma og breiða út nýjar hugmyndir sem geta breytt heiminum, enda er slagorð samtakanna “Ideas Worth Spreading”. TEDx -ráðstefnur eru haldnar út um allan heim og verður hin íslenska TEDxReykjavík haldin í þriðja sinn í maí á næsta ári.

„Fyrir útsendinguna mun GreenQloud bjóða upp á viðburð í Bíó Paradís í tengslum við frumkvæðið Konur í tækni. Viðburðurinn er opinn öllum og við hvetjum sem flesta til að mæta,“ segir Bryndís.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×