Fótbolti

Dramatísk jöfnunarmark hjá Hallberu og félögum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hallbera Guðný Gísladóttir.
Hallbera Guðný Gísladóttir. Mynd/Stefán

Hallbera Guðný Gísladóttir lék allan leikinn með Piteå þegar liðið gerði 2-2 jafntefli á útivelli á móti Vittsjö í sænsku kvennadeildinni í dag. Þetta var fyrsta stig Piteå-liðsins í langan tíma en liðið var búið að tapa fjórum leikjum í röð.  

Varamaðurinn Francisca Ordega tryggði Piteå eitt stig þegar hún skoraði jöfnunarmarkið á fjórðu mínútu í uppbótartíma. Ordega kom inn á sem varamaður á 85. mínútu.

Jane Ross kom Vittsjö í 2-1 á 60. mínútu en June Pedersen hafði jafnað metin á 29. mínútu aðeins níu mínútum eftir að Kendall Fletcher kom Vittsjö í 1-0. Vittsjö hafði aðeins fengið fjögur stig í fyrstu sjö leikjum sínum og ekki unnið síðan 14. apríl.

Piteå-liðið byrjaði mótið vel og fékk fimm stig út úr fyrstu þremur leikjum sínum. Þetta var hinsvegar fyrsta stig Hallberu og félaga hennar frá því að Piteå vann 3-2 sigur á Jitex 28. apríl síðastliðinn.

Hallbera var í vinstri bakverðinum eins og fyrr í sumar en þetta var síðasti leikur hennar með Piteå áður en hún hittir fyrir félaga sína í íslenska landsliðinu. Ísland mætir Skotlandi í vináttulandsleik á Laugardalsvellinum um næstu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×