Íslenski boltinn

Margrét Lára um Ramonu Bachmann: Hún hreyfir sig eins og strákur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslensku varnarmennirnir réðu illa við Bachmann.
Íslensku varnarmennirnir réðu illa við Bachmann. mynd/daníel
Svisslendingurinn Ramona Bachmann sýndi heldur betur snilli sína á Laugardalsvelli í kvöld þegar hún sprengdi upp íslensku vörnina hvað eftir annað og það var í raun ótrúlega að stórkostlegir sprettir hennar skiluði ekki fleiri mörkum.  Sviss vann 2-0 sigur á Íslandi í undankeppni HM og það er ljóst að með Bachmann í svona formi þá fer svissneska liðið langt.

Margrét Lára Viðarsdóttir fékk fáa bolta til að vinna með í framlínu íslenska liðsins enda rataði boltinn sjaldan til hennar. Hún sá hinsvegar Ramonu Bachmann fara á kostum hinum megin á vellinum.

„Þessi stelpa er með yndislegar hreyfingar. Ég sem knattspyrnuáhugamaður þá elska ég að sjá svona leikmann. Hún hreyfir sig eins og strákur. Þetta er frábær leikmaður og það er erfitt að stoppa hana. Við hefðum getað spilað betur á móti henni því við vorum að leyfa henni að spila sinn leik. Hún lá mikið í grasinu og við vorum að láta það pirra okkur," sagði Margrét Lára.

Ramonu Bachmann skoraði strax á níundu mínútu og var því strax kominn í gírinn í upphafi leiks.

„Þær voru líka að vinna leikinn og þá er auðveldara að vera jákvæður og hress. Hún var í gír í dag en ég er að fara að spila á móti henni aftur á sunnudaginn og fæ kannski að hefna mín strax þá," sagði Margrét Lára en þær mætast þá í sænsku deildinni. Margrét Lára spilar með Kristianstad en Bachmann er í aðalhlutverki hjá toppliði LdB FC Malmö.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×