Menning

Börnin í Dimmuvík kvikmynduð

Bergsteinn Sigurðsson skrifar
Jón Atli er með þrjá leikstjóra í sigtinu sem hann vill að leikstýri Börnunum í Dimmuvík.
Jón Atli er með þrjá leikstjóra í sigtinu sem hann vill að leikstýri Börnunum í Dimmuvík. Fréttablaðið/Stefán
„Við handsöluðum þetta í morgun en eigum eftir að ganga formlega frá samningum,“ segir Jón Atli Jónasson, en danski framleiðandinn Nimbus ætlar að kvikmynda bók hans, Börnin í Dimmuvík, sem kom út fyrir nokkrum vikum.

Börnin í Dimmuvík er stutt skáldsaga, nóvella, sem gerist að mestu árið 1930 og segir frá lífsbaráttu fjölskyldu í ónefndu plássi úti á landi.

Tvö framleiðslufyrirtæki fengu að sjá handritið að myndinni sem Jón Atli vann upp úr bókinni, hið danska Nimbus, sem meðal annars framleiðir spennuþættina Brúna, og annað sænskt. Bæði lýstu áhuga á að gera myndina en á endanum hreppti Nimbus hnossið.

Enn á eftir að finna leikstjóra fyrir verkið. „Ég hef mikið um það að segja hver verður fyrir valinu og er með þrjá í sigtinu; þá Søren Kragh-Jacobsen, Ruben Östlund og Thomas Vinterberg. Þeir eru að skoða þetta en það á eftir að koma í ljós hvort það gengur upp.“

Næst á dagskrá hjá Jóni Atla er að halda fjögurra kvölda sumarnámskeið í handritsgerð fyrir kvikmyndir og sjónvarp í næstu viku. Á námskeiðinu, sem ber heitið frá hugmynd að handriti, kennir hann undirstöðuatriði í handritsgerð með áherslu á leik og kvikmyndahandrit. Námskeiðið er byggt upp þannig að fyrst læra þáttakendur undirstöðuatriði í handritsskrifum og eru svo settir af stað í að skrifa handrit með öllu sem því fylgir. Þáttakendur skila svo uppkasti að handriti sem Jón Atli vinnur svo áfram með þeim hverjum og einum.

Námskeiðið hefst á þriðjudagskvöldið 18. júní. Enn eru nokkur sæti laus. Allar nánari fyrirspurnir á hugmyndoghandrit@gmail.com.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×