Menning

Búinn að vera með Kjarval á heilanum lengi

Sara McMahon skrifar
Þjóðleikhúsið hyggst setja á svið leikverk Mikaels Torfasonar um Jóhannes S. Kjarval á næsta leikári. Ari Matthíasson kveðst spenntur fyrir verkinu. Mynd/Arnþór
Þjóðleikhúsið hyggst setja á svið leikverk Mikaels Torfasonar um Jóhannes S. Kjarval á næsta leikári. Ari Matthíasson kveðst spenntur fyrir verkinu. Mynd/Arnþór mynd/hari
Leikverk um ævi listamannsins Jóhannesar S. Kjarvals verður sett á svið Þjóðleikhússins á næsta leikári.

Mikael Torfason, ritstjóri og skáld, ritar verkið, sem ber titilinn Síðustu dagar Kjarvals, og mun Ingvar E. Sigurðsson að öllum líkindum fara með titilhlutverkið.

„Kjarval var okkar alfremsti listamaður og ekkert leikhús hefur sinnt honum neitt sérstaklega fram að þessu. Þjóðleikhúsið hefur lengi haft áhuga á og vilja til þess að setja upp verk sem fjallar um lífshlaup Kjarvals enda var hann mjög merkilegur maður, skemmtilegur í tilsvörum og algjörlega „fenómenal" málari," segir Ari Matthíasson, framkvæmdastjóri Þjóðleikhússins.

Verkið segir frá síðustu ævidögum listmálarans og að sögn Ara verður sýningin mjög sjónræn.

Höfundur verksins, Mikael Torfason, kveðst hafa verið með Kjarval á heilanum í þó nokkur ár. „Kjarval er búinn að vera partur af mínu lífi í nokkur ár. Hann var algjörlega stórkostlegur málari og svolítill furðufugl og skilur eftir sig ógrynni af rituðu máli; greinum, bókum og jafnvel leikrit. Hann var alhliða snillingur og alveg stórkostleg persóna. Hann hefur verið áhugamál mitt í mörg ár en ég vissi aldrei almennilega hvað ég ætlaði að gera með þetta efni, leikritið varð svo ofan á og ég er ógeðslega spenntur að skrifa þetta verk ofan í Ingvar E.," segir Mikael.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×