Menning

Blaðamaður á ystu nöf í lífi og starfi

Björn Thors fer með hlutverk drykkfellds blaðamanns í kvikmyndinni Þetta reddast. Börkur Gunnarsson leikstýrir myndinni og skrifar einnig handritið að henni.
Björn Thors fer með hlutverk drykkfellds blaðamanns í kvikmyndinni Þetta reddast. Börkur Gunnarsson leikstýrir myndinni og skrifar einnig handritið að henni.
Íslenska kvikmyndin Þetta reddast verður frumsýnd í Sambíóunum annað kvöld. Myndin er fyrsta íslenska mynd Barkar Gunnarssonar, en áður hefur hann leikstýrt tékknesku myndinni Sterkt kaffi sem var frumsýnd árið 2004.

Myndinni er lýst sem raunsærri gamanmynd og segir frá ungum blaðamanni sem kominn er á síðasta séns, bæði í vinnunni og í sambandinu, vegna óhóflegrar drykkju. Björn Thors fer með hlutverk blaðamannsins Villa sem reynir að bjarga sambandi sínu með því að bjóða kærustunni í rómantíska ferð á Búðir. Babb kemur í bátinn þegar ritstjóri blaðsins sendir Villa í vinnuferð í Búrfellsvirkjun sömu helgi og ferðin á Búðir var áætluð. Þar sem Villi er kominn á síðasta séns í vinnunni ákveður hann að slá tvær flugur í einu höggi og sameina vinnuferðina og rómantísku helgina með kærustunni. Með önnur hlutverk fara Guðrún Bjarnadóttir, sem leikur kærustu Villa, Jón Páll Eyjólfsson, Maríanna Clara Lúthersdóttir, Halldór Gylfason, Ingvar E. Sigurðsson, Edda Björgvinsdóttir og Katla María Þorgeirsdóttir.

Myndin var tekin upp í Reykjavík og við Búrfellsvirkjun sumarið 2009. Börkur segir eftirvinnslu myndarinnar hafa verið tímafreka og það útskýri hvers vegna myndin hafi ekki verið frumsýnd fyrr en núna. „Myndin var eiginlega alveg tilbúin árið 2010. Þá var ákveðið að fínisera nokkrar senur í klippiherberginu, þar sem hún festist í dágóðan tíma. Nú er hún orðin aðeins betri og allir sáttir,“ sagði Börkur í viðtali við Fréttablaðið í janúar.

Börkur hefur starfað sem blaðamaður á hinum ýmsu miðlum og byggir handritið á reynslu sinni í blaðamannaheiminum. Hann segir alla miðla eiga sinn alka og telur að flestir muni kannast við týpuna sem Björn leikur.

- sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×