Sport

Bjóða öllum í krullu á mánudagskvöldið

Mynd/NordicPhotos/Getty
Mánudagskvöldið 7. október stendur Krulludeild Skautafélags Akureyrar fyrir nýliðakynningu í Skautahöllinni á Akureyri en þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem og að nýliðamót verði á dagskrá í framhaldinu.

Allir eru velkomnir á svellið mánudagskvöldið 7. október frá kl. 20.30 til 22.30. Krullufólk með reynslu verður á svellinu og leiðbeinir gestum um réttu aðferðirnar. Allur búnaður er til staðar þannig að gestir þurfa einungis að mæta í hreinum og stömum íþróttaskóm og teygjanlegum buxum – tilbúnir að láta koma sér á óvart með skemmtilegri íþrótt og viðbúnir því að falla fyrir henni.

Í framhaldi af kynningunni er síðan ætlunin að halda stutt nýliðamót laugardagskvöldið 12. október, en nákvæmari tímasetningar og skráningarupplýsingar fyrir það mót verða kynntar síðar.

Krulludeild Skautafélags Akureyrar var stofnuð 1996, en íþróttin var þó ekki mikið stunduð fyrr en skautasvellið komst undir þak með byggingu Skautahallarinnar. Um 30 manns stunda krulluíþróttina reglulega. Nokkur fjölgun varð í iðkendahópnum á árunum 2004-2010, en hefur heldur fækkað frá því þegar flest var. Krulludeild SA stendur fyrir æfingum og mótahaldi frá september og fram í maíbyrjun. Keppnistímabilið endar með alþjóðlega mótinu Ice Cup sem haldið er fyrstu helgina í maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×