Menning

Karlmennskan krufin

Símon Birgisson skrifar
Haukur Ingvarsson ræðir við Guðmund Andra, Sjón og Sindra Freysson um karlmennsku.
Haukur Ingvarsson ræðir við Guðmund Andra, Sjón og Sindra Freysson um karlmennsku.
Bókamessan í Reykjavíkurborg er samstarfsverkefni Félags íslenskra bókaútgefenda og Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO. Bókamessan er haldin í þriðja sinn í Ráðhúsi Reykjavíkur. Meðal atriða á Bókamessunni er málþing sem Haukur Ingvarsson rithöfundur og fjölmiðlamaður mun stýra um hinar ýmsu hliðar karlmennskunnar í bókum eftir Sjón, Guðmund Andra Thorsson og Sindra Freysson.



„Ég mun fá Sjón, Guðmund Andra og Sindra í spjall til mín. Til hliðsjónar verða þrjár bækur eftir þá sem gerast allar á ólíkum tímum og fjalla allar um karlmennskuna á einn eða annan hátt,“ segir Haukur. Bækurnar þrjár eru Mánasteinn eftir Sjón, Sæmd eftir Guðmund Andra og Blindhríð eftir Sindra Freysson.



„Það sem er áhugavert við bækurnar er að þær endurspegla samfélagið á ólíkum tímaskeiðum. Guðmundur Andri bregður upp fallegri mynd af Reykjavík, Sjón bætir við þá mynd í Mánasteini og svo erum við komin inn í nútímann í bók Sindra. Þarna er því ákveðin þróun, bæði samfélagsþróun en líka menningarþróun sem áhugavert er að lesa um.“



Haukur segir málþingið vera tilraun til að finna rauðan þráð í þessum þremur ólíku bókum.

„Ætli það mætti ekki segja að þetta sé tilraun til að sýna fram á að karlmennskan er ekki bara eitthvað eitt. Hún á sér fjölbreyttar birtingarmyndir, menn geta verið viðkvæmir eða harðir og allt þar á milli. Bók Sjóns fjallar um ungan dreng sem selur sig í vændi í byrjun síðustu aldar í Reykjavík, í bók Guðmundar Andra eru Benedikt Gröndal og Björn M. Olsen í aðalhlutverki sem bundu ekki bagga sína sömu hnútum og samferðamennirnir en bók Sindra Freyssonar fjallar um skyndikynni sem hafa róttæk áhrif á mann í nútímanum,“ segir Haukur.



Á dögunum brast sjálfur Eiður Smári í grát í sjónvarpi allra landsmanna þegar hann tilkynnti að hann hefði leikið sinn síðasta landsliðsleik. Var það dæmi um að hugmyndin um karlmennsku sé að breytast?

„Já, kannski mun þetta augnablik Eiðs Smára bera á góma,“ segir Haukur. „Það hefur kannski verið mikilvæg birtingarmynd þess að karlmenn búa yfir tilfinningum. Það þarf jú sannkallað hörkutól til að þora að fella tár í sjónvarpi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×