Enski boltinn

Laudrup: Pressan er á Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Laudrup
Michael Laudrup Mynd/Nordic Photos/Getty
Michael Laudrup, knattspyrnustjóri Swansea, segir að sitt lið hafi allt að vinna í bikarleiknum á móti Arsenal í dag. Swansea er aðeins þremur sætum á eftir Arsenal í stigatöflunni en Laudrup talar samt um sína menn sem pressulausa liðið í þessum leik.

„Arsenal er stór klúbbur og stórir klúbbar eiga að vinna titla. Það er því mun meiri pressa á þeim en okkur," sagði Michael Laudrup í viðtali við South Wales Evening Post.

„Ég tel að ég móðgi ekki stuðningsmenn Arsenal með því að segja að besti möguleiki Arsenal á titli á þessu tímabili sé að vinna ensku bikarkeppnina. Ég býst því við þeirra sterkasta liði í þessum leik," sagði Michael Laudrup.

Arsenal er 18 stigum á eftir toppliði Manchester United í ensku úrvalsdeildinni og mætir Bayern Munchen í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Swansea er á heimavelli í bikarleiknum í dag og vann 2-0 sigur á Arsenal í deildarleik liðanna á dögunum en sá leikur fór fram í London. Spánverjinn Michu skoraði þá bæði mörkin á 88. og 90. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×