Menning

Borgað fyrir að hanga

Álfrún Pálsdóttir skrifar
Leikarinn Guðjón Davíð Karlsson fer út fyrir þægindarammann er hann býr sig undir hlutverk sótarans Berts í söngleiknum Mary Poppins. Fréttablaðið/pjetur
Leikarinn Guðjón Davíð Karlsson fer út fyrir þægindarammann er hann býr sig undir hlutverk sótarans Berts í söngleiknum Mary Poppins. Fréttablaðið/pjetur
"Ég viðurkenni að fyrst þegar ég prófaði þetta fékk ég smá fiðring en ég treysti strákunum á sviðinu vel svo það er ekkert að óttast," segir leikarinn Guðjón Davíð Karlsson sem þarf að fara út fyrir þægindarammann er hann tekst á við hlutverk sótarans Berts í leikritinu Mary Poppins.

Guðjón, eða Gói eins og hann er kallaður, þarf meðal annars að steppa á hvolfi í sýningunni og fékk sérstakt flugbelti til þess að útfæra þá brellu. Gói hefur því eytt síðustu dögum í að hanga í bókstaflegri merkingu. "Ég hef nú haft það fyrir reglu að hanga ekki í vinnunni en nú fæ ég borgað fyrir það. Ég er sem betur fer ekki lofthræddur. Það er mikið um flug- og tæknibrellur í sýningunni sem gerir hana að miklu sjónarspili," segir Gói en flugbeltið svokallaða hefur verið notað í Spiderman-myndunum og af stórstjörnum á borð við Brad Pitt og Angelinu Jolie. "Jú, þetta er víst bæði Broadway- og Hollywood-vottað belti. Það eykur óneitanlega öryggistilfinninguna en það er búið að smíða sérstakt búr þar sem ég get æft mig í að dansa á hvolfi og hlið."

Gói hefur tekið þátt í fjölmörgum dans- og söngleikjum síðustu árin. Hann viðukennir þó að hann hafi aldrei þurft að læra svona flókna og nákvæma dansrútínu áður. "Það mæðir mjög mikið á okkur Hönsu, Jóhönnu Vigdísi, sem leikur Mary Poppins. Við erum búin að vera á mjög stífum æfingum með Lee Proud danshöfundi og aðstoðarmanni hans, Anthony Whiteman. Steppið er einnig búið að vera glíma. Það er ekki beint dansstíll sem maður tekur á djamminu og ómögulegt að ljúga sig í gegnum það. Ef þú tekur vitlaust skref þá heyrist það. En það er búið að vera mjög gaman að læra að steppa og ég ætla klárlega að steppa í öllum sýningum hér eftir."

Söngleikurinn Mary Poppins verður frumsýndur í Borgarleikhúsinu 22. febrúar. Leikstjóri er Bergur Þór Ingólfsson og Agnar Már Magnússon sér um tónlistina.

Gói heillaðist af sýningunni er hann sá hana í London fyrir sjö árum. "Ég man að ég sat alla sýninguna með hökuna í gólfinu og hugsaði með mér: "Ég ætla að leika Bert!" Svona geta draumar ræst."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×