Innlent

Prófkjör leiða konur og ungt fólk frekar til áhrifa

Eva Bjarnadóttir skrifar
Frambjóðendur voru valdir á framboðslista síðasta vor með ólíkum aðferðum en jafngóðum árangri.
Frambjóðendur voru valdir á framboðslista síðasta vor með ólíkum aðferðum en jafngóðum árangri. Mynd/Pjetur
Ný rannsókn á íslenskum prófkjörum leiðir í ljós að þau hafa ekki slæm áhrif á möguleika kvenna og ungs fólks til að komast til áhrifa. Lengi hefur verið deilt um ágæti prófkjara, en þetta er í fyrsta sinn sem áhrif þeirra á kosningar eru rannsökuð með jafn ítarlegum hætti.

Íslenskir stjórnmálaflokkar hafa notast við prófkjör í mun meiri mæli en þekkist annars staðar og gefa íslensk prófkjör því einstakt tækifæri til að skoða áhrif prófkjara á útkomu kosninga. Gunnar Helgi Kristinsson, stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands, og Indriði H. Indriðason, dósent við Háskólann í Kaliforníu, stóðu að rannsókninni og tóku þar fyrir íslensk prófkjör frá upphafi.

Því hefur verið haldið fram að prófkjör leiði síður til þess að konur og ungt fólk komist til áhrifa. Niðurstöður rannsóknar Gunnars Helga og Indriða benda hins vegar til þess að það sé rangt.

Konum gangi ekki verr en körlum og nái jafnvel oftar markmiðum sínum í baráttu um önnur sæti en það efsta. Konur nái hins vegar síður árangri við að ná fyrsta sæti á lista heldur en karlar. Það hefur þó ekki áhrif á heildarárangur þeirra við að ná þingsætum.

Samanburður á ólíkum aðferðum við val á framboðslista sýnir að prófkjör virðast frekar leiða til þess að konur vinni þingsæti heldur en aðrar aðferðir. Þau leiða hins vegar síður til þess að konur fái sæti sem fyrirfram er líklegt að leiði til þingsætis.

Samkvæmt Gunnari Helga og Indriða væri ein leið til þess að túlka þá niðurstöðu að þegar flokkarnir velja sjálfir á framboðslista sína með flokksvali eða uppstillingarnefnd, eru konur síður líklegar til þess að fá sæti á lista sem leiðir til þingsætis. Þær eru hins vegar líklegri til að fá sæti sem leiðir næstum því til þingsætis, nema ef flokkur þeirra vinnur óvæntan kosningasigur.

Sömu sögu er að segja um áhrif prófkjara á möguleika ungs fólks til áhrifa. Kjörnir fulltrúar eru að jafnaði fimm árum yngri þar sem haldin eru prófkjör samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar. Prófkjör virðast því opna möguleika yngri frambjóðenda á að fá aukinn stuðning. Ef til vill vegna þess að auðveldara sé að fá þátttakendur í prófkjörum til þess að svara ákalli um nýtt blóð, heldur en þá sem stýra stjórnmálaflokkunum.

„Meginniðurstaðan sýnir ekki fram á þau neikvæðu áhrif sem hefur verið haldið fram. Stundum eru áhrifin lítil eða engin, en allt tal um að prófkjör leiði til skelfilegrar niðurstöðu stenst ekki skoðun,“ segir Gunnar Helgi.

Skýringanna á því að færri konur hljóti þingsæti en karlar sé því ekki að leita í prófkjörsaðferðinni. Frekar ætti að líta til þess að konur hafa að jafnaði verið um 35 prósent þátttakenda í prófkjörum síðastliðin tuttugu ár og til annarra aðferða flokka við val á lista.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×