Menning

Sýning Steinunnar minnistæðust

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Nú er unnið að því að Steinunn haldi fyrirlestur í tengslum við Chicago Art Institute.
Nú er unnið að því að Steinunn haldi fyrirlestur í tengslum við Chicago Art Institute. Mynd/Bragi Þór Jósefsson
„Það er auðvitað mikill heiður fyrir mig að sýningin sé nefnd í þessu samhengi enda úr ótrúlega mörgum myndlistarviðburðum að velja á heilu ári í Chicago,“ segir Steinunn Þórarinsdóttir, myndlistarmaður, en sýning Steinunnar, Borders, hefur vakið mikla athygli og var meðal annars valin ein af tíu minnistæðustu myndlistarviðburðum í Chicago árið 2013 af Chicago Magazine.

„Þetta er ein af stærstu borgum Bandaríkjanna og þekkt fyrir menningu og listir. Nú er unnið að því að ég fari til Chicago á árinu og haldi fyrirlestur í tengslum við Chicago Art Institute en sýningin er staðsett við hlið safnsins í Solti Garden,“ segir Steinunn jafnframt.

Auk þessa hefur verið fjallað um sýninguna í Chicago Tribune, Chicago Sun Times, sýningin var á forsíðu tímaritsins Where Magazine í október og allar sjónvarpsstöðvar í Chicago hafa fjallað um hana, svo eitthvað sé nefnt.

„Ég er þakklát fyrir þann stuðning sem sýningin fékk hérna heima en Menntamálaráðuneytið veitti ríflegan styrk. Sýningin er að öðru leyti kostuð af Bloomberg og unnin í samvinnu við Chicago Park District og Grant Park Conservancy,“ útskýrir Steinunn.

Steinunn hélt síðast einkasýningu á Íslandi seint á síðasta ári, í Gallerí Tveimur Hröfnum á Baldursgötu. Þá var verkið Hliðstæður eftir Steinunni sett upp við flugvöllinn í San Diego í Kaliforníu fyrir skemmstu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×