Menning

Undirbýr tónleika í New York og Washington

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Geirþrúður Ása: “Ég verð heima fram á mánudag og fer þá beint út að undirbúa tónleikaferð með tríóinu mínu.”
Geirþrúður Ása: “Ég verð heima fram á mánudag og fer þá beint út að undirbúa tónleikaferð með tríóinu mínu.” Vísir/Andri Marinó
Ég spilaði með Sinfóníuhljómsveit unga fólksins í gamla daga þegar ég var í námi hérna heima,“ segir Geirþrúður Ása Guðjónsdóttir fiðluleikari sem leikur einleik á tónleikum sveitarinnar í Langholtskirkju í dag. „Ég mun spila fiðlukonsert eftir Mendelsohn en hljómsveitin spilar líka verk eftir Jórunni Viðar og Dvorak,“ heldur Geirþrúður áfram. „Hljómsveitarstjóri Sinfóníunnar er Gunnsteinn Ólafsson og hann er mjög duglegur að halda sambandi við okkur nemendur sem erum í framhaldsnámi erlendis og bjóða okkur að leika einleik með hljómsveitinni. Þetta er mjög mikilvæg reynsla fyrir okkur og er ég mjög þakklát fyrir það tækifæri.“



Geirþrúður stundar framhaldsnám í fiðluleik í Hartt-tónlistarháskólanum í Connecticut og hyggst ljúka námi í vor. „Ég er búin að vera í framhaldsnámi í Bandaríkjunum síðastliðin þrjú ár og hef haft nóg að gera þar. Ég verð heima fram á mánudag og fer þá beint út að undirbúa tónleikaferð með tríóinu mínu. Við ætlum að halda tónleika í Scandinavia House í New York og í sendiráði Íslands í Washington DC þann 10. og 14. apríl.“



Geirþrúður segist endilega hafa viljað spila einhver íslensk verk á tónleikunum og því haft samband við Atla Heimi Sveinsson. „Ég hafði samband við Atla Heimi í nóvember síðastliðnum og fékk hann til að útsetja ljúflingslögin fyrir tríóið mitt og hann tók mjög vel í það. Auk þess spilum við verk eftir Grieg, Shostakovich og Brahms á tónleikunum.“

Hvað tekur við að námi loknu? Ætlarðu að koma heim? „Já, ég hugsa það. Það er svo gott að vera tónlistarmaður á Íslandi því maður getur alltaf skapað sér einhver verkefni.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×