Erlent

Kínverjar fækka bílum til að sporna við mengun

VISIR/AFP
Kínversk stjórnvöld hafa í hyggju að fækka bílum til að bæta loftgæði í landinu.

Ef áætlanir þeirra ganga eftir mun fækkun þeirra nema um fimm milljónum bíla í ár, þar af 330 þúsund í höfuðborginni Peking.



Mengun í landinu hefur mikið verið milli tannanna á fólki í kjölfar hinnar miklu iðnaðaruppbyggingar sem hefur orðið í landinu á undanförnum árum.



Er þessi bílafækkun liður í stórfelldri aðgerð kínverskra stjórnvalda til að koma böndum á útblástur gróðurhúsalofttegunda en síðustu fyrirætlanir yfirvalda í þessum málaflokki tókust ekki upp sem skyldi. Því var brugðið á það ráð að grípa til jafn róttækra aðgerða og þessarar afturköllunar.



Kínversk stjórnvöld hafa einsett sér að draga úr útblæstri um 4 prósent á þessu ári sem lið í fimm ára áætlun sinn sem kveður á um að 17 prósenta útblástursminnkun á árunum 2011-2015.



Yfirvöld í Peking hafa ekki gefið upp hvernig þessari aðgerð verður hrint í framkvæmd en kínverskum ökumönnum hefur áður staðið til boða að skila inn bílum sínum gegn greiðslu.

Frekar upplýsingar má finna á heimasíðu Reuters.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×