Skoðun

Gefum ADHD-teyminu framhaldslíf

Elín H. Hinriksdóttir og Þröstur Emilsson skrifar
Á dögunum bárust þær fregnir frá stjórnendum Landspítalans að ekki yrði framhald á starfsemi ADHD-teymis spítalans. Ekki er gert ráð fyrir fjármunum til teymisins í fjárlagafrumvarpi 2015 og því sjá stjórnendur spítalans sér ekki fært að halda áfram starfseminni að óbreyttu. Þetta eru váleg tíðindi þar sem árangur teymisins er ótvíræður.

Greining ADHD hjá fullorðnum er vandasamt ferli en því er meðal annars lýst í klínískum leiðbeiningum Landlæknis. Teymið styðst við leiðbeiningarnar í greiningarferlinu sem er flókið. Afla þarf upplýsinga um æsku sjúklingsins, auk upplýsinga úr lyfjagagnagrunni Landlæknis um notkun ávanabindandi lyfja. Sömuleiðis er aflað upplýsinga frá fyrri greiningar- og meðferðaraðilum. Einungis er tekið við sjúklingum sem hafa tilvísun frá lækni. Frá því starfsemin hófst í mars 2013 hafa borist rúmlega 700 tilvísanir frá læknum. Af þeim sem vísað er til ADHD teymisins, greinist um helmingur með ADHD.

Teymið hefur lokið skimun hjá um 260 sjúklingum en greiningu hjá 158 sjúklingum. Á fimmta hundrað sjúklinga bíða eftir að verða kallaðir til skimunar og/eða greiningar hjá ADHD teyminu og er biðtíminn nú um 10 mánuðir. Það undirstrikar svo ekki verður um villst hve mikil þörf var og er fyrir þjónustu teymisins.

ADHD, athyglisbrestur með ofvirkni, er taugaþroskaröskun sem kemur yfirleitt fram snemma í þroskaferlinu. Röskunin eldist ekki af fólki þrátt fyrir að einkennin taki oft breytingum á æviskeiðinu. Hjá fullorðnum með ADHD má oft merkja meiri innri spennu, eirðarleysi, verkkvíða, tilfinningalegt ójafnvægi auk athyglisbrests. Fylgikvillar eru algengir og þar má nefna kvíðaröskun og þunglyndi en aðrir fylgikvillar geta verið geðhvarfasýki, persónuleikaröskun og fíknivandi. Líkamlegir fylgikvillar geta verið offita, hár blóðþrýstingur, vefjagigt og svefntruflanir, svo dæmi séu tekin.

Margvíslegur árangur

ADHD getur reynst samfélaginu mjög kostnaðarsamt ef ekkert er að gert, m.a. vegna fylgikvilla röskunarinnar. Þar má nefna aukna tíðni atvinnuleysis, lægri laun og fíkniefnavanda, svo fátt eitt sé nefnt. Það að meðhöndla ekki ADHD hjá fullorðnum leiðir til umtalsvert meiri útgjalda fyrir ríki og sveitarfélög, viðkomandi einstaklingar þurfa oftar en ekki á dýrari úrræðum í heilbrigðis- og félagslega kerfinu að halda. Þeim er hættara við að sýna andfélagslega hegðun en nýlegar rannsóknir hafa sýnt að stór hluti fanga, 40-65%, er með ADHD.

Fullyrða má að greining og meðhöndlun ADHD hjá fullorðnum snúist um almannaheill og lýðheilsu, að ógleymdum þeim fjárhagslega ávinningi sem skapast. Með tiltölulega einföldum úrræðum má veita þá aðstoð og þær bjargir sem þeir þurfa á að halda. Með eflingu ADHD- -teymisins næst margvíslegur ávinningur. Lífsgæði einstaklinganna sjálfra og allra sem að þeim standa aukast. Viðkomandi er gert kleift að taka virkan þátt í samfélaginu þar sem líkur aukast á að ljúka námi, halda vinnu, að viðkomandi greiði skatta og skyldur, samskipti verða betri og minni líkur eru á sambandsslitum. Okkar hlutverk er að fjölga úrræðum, leita áhrifaríkra leiða og auka þannig lífsgæði fólks.

ADHD samtökin hafa ætíð lýst yfir samstarfsvilja, bæði við sérfræðinga og stjórnvöld, þegar kemur að úrræðum í þágu fólks með ADHD. Öll rök hníga að mikilvægi þess að efla ADHD-teymið enn frekar en til þess þarf fjármagn. Líta þarf á eflingu ADHD-teymisins sem langtímafjárfestingu, mikilvægan hlekk í framkvæmd lýðheilsustefnu og skref í átt að betra samfélagi en ekki kostnað.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×