Skoðun

Ómöguleiki Bjarna Benediktssonar

Gylfi Skarphéðinsson skrifar
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra landsins, hefur lýst því yfir að hann geti ekki uppfyllt loforð flokks síns fyrir kosningar um að þjóðin fái að kjósa um áframhald aðildarviðræðnanna við ESB. Ástæðan sé sú að verði þjóðaratkvæðagreiðslan haldin og komi út úr henni sú niðurstaða að þjóðin vilji klára aðildarviðræðurnar til að geta tekið upplýsta afstöðu til samningsins, þá geti ríkisstjórnin ekki framfylgt þeirri niðurstöðu vegna þess að stjórnin er á móti inngöngu í ESB.

Í stuttu máli: Ómöguleikinn felst í að ríkisstjórnin getur ekki framfylgt vilja almennings ef hann er í andstöðu við stefnu ríkisstjórnarinnar.

Það sem Bjarni áttar sig ekki á er að ef hann treystir sér ekki til að virða niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu og framfylgja því sem þar kemur fram, þá á hann einfaldlega að stíga til hliðar og hleypa einhverjum að sem treystir sér til þess. Ómöguleikinn sem Bjarni talar um er í raun sá að honum finnst ómöguleg tilhugsun að hann og hans stjórn verði að stíga til hliðar ef þjóðin er á öndverðu máli við stefnu hans.

Þessi afstaða veldur því að kjósendur þessa lands geta aldrei kosið Bjarna Benediktsson til valda aftur. Ljóst er að loforðum hans er ekki treystandi og að á meðan hann er við völd þá er tilgangslaust að halda þjóðaratkvæðagreiðslur um stór sem smá málefni.

Maður spyr sig, hvernig fara þeir eiginlega að þessu í Sviss? Varla eru niðurstöður allra þjóðaratkvæðagreiðslnanna þar í samræmi við stefnur þeirra flokka sem eru við völd hverju sinni? Ég hvet Bjarna Benediktsson og alla landsmenn til að lesa bæklinginn „Nútímalegt beint lýðræði í Sviss og á Íslandi“ sem gefinn var út af svissneska utanríkisráðuneytinu árið 2011. Þið finnið hann á Netinu.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×