Frumleg mynd
Kvikmyndin er eftir Benedikt Erlingsson, leikara og leikstjóra, en þetta er hans fyrsta mynd í fullri lengd. Friðrik Þór Friðriksson framleiddi myndina.
Í rökstuðningi fyrir valinu segir að myndin sé sérlega frumleg með rætur í kjarnyrtum húmor Íslendingasagnanna. „Leikstjórinn hefur djúpan skilning á frumkröftum hrossa og manna,“ segir í rökstuðningnum.

Aðrir geta lært af Reykjavík
Reykjavíkurborg fékk náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs sem einnig voru afhent í kvöld. Verðlaunin nema 350 þúsund danskra króna, jafnvirði 7,3 milljóna íslenskra króna.
Í rökstuðningi fyrir valinu segir að Reykjavíkurborg hljóti verðlaunin fyrir víðtækt og markvisst starf sveitarfélagsins að umhverfismálum og að borgin hafi gert ýmislegt sem getur orðið öðrum innblástur.
Bent er á að 87 prósent ökutækja borgarinnar gangi fyrir rafmagni eða gasi. „Við vitum ekki af neinum sveitarfélögum sem hafa nálægt því eins umhverfisvænan bílaflota,“ segir í rökstuðningnum.